Eftir Geir Ágústsson verkfræðing:
Mér var að detta í hug samsæriskenning - kenning um samsæri. Ég trúi henni ekki sjálfur en komi í ljós að hún er rétt þá kæmi það mér ekki á óvart. Annað eins hefur nú gerst og að áhrifamikil öfl hittist á fundi og leggi á ráðin til að maka eigin krók á kostnað fjárhags og heilsu almennings.
Kenning mín er svohljóðandi: Raforkuskortur og skerðingar á rafmagni á Íslandi eru leiðir til að afla tekna fyrir ríkissjóð.
Byrjum á því sem blasir við:
Landsvirkjun er að framleiða gríðarlegar arðgreiðslur í ríkissjóð að því marki að ráðherra ríkisfjármála kallar þær lykilþátt í ríkisfjármálum næstu ára. Með öðrum orðum: Galtómur ríkissjóður þarf á þessum arðgreiðslum að halda.
Landsvirkjun fær ekki að virkja, þ.e. eyða milljörðum í að byggja upp innviði rafmagnsframleiðslu á Íslandi, þ.e. draga á hagnað sinn til að fjárfesta. Það er í boði ríkisins. Annað sem er í boði ríkisins er aukin raforkunotkun og slit á vegum með því að liðka fyrir sölu rafmagnsbíla. Hvoru tveggja stuðlar að raforkuskorti. Hvoru tveggja þrýstir á hærra raforkuverð. Hærra raforkuverð þýðir aukinn hagnaður Landsvirkjunar. Tilviljun? Kannski. Það, eða óvitaskapur. Hvort er verra?
Landsnet, sem er hið opinbera fyrirbæri sem dreifir hinu sjaldgæfa rafmagni, framleiðir líka argreiðslur í opinbera sjóði. Landsnet lokkaði stóra raforkunotendur á Austfjörðum til að skipta út olíu fyrir rafmagn og hefur svo þurft að svíkja afhendingu á því rafmagni ítrekað undanfarin misseri, og fyrirséð að það haldi áfram. En það gerir ekkert til. Þeir notendur borga ekki hæsta raforkuverðið í skiptum fyrir óstöðuga raforku. Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur bendir á að hægagangur í framkvæmdum til að losa um fyrirsjáanlega flöskuhálsa hafi leitt til mikilla vandræða og útgjalda.
En með því að framkvæma ekki og búa til skort og hærra verð er hægt að skila hagnaði og arðgreiðslum. Þetta gildir í tilviki Landsvirkjunar og Landsnet. Varan - raforkan - er skert í bæði framleiðslu og dreifingu og þeir sem framleiða og dreifa fá fyrir vikið meira í vasann sem ríkið getur svo hirt. Hvatinn til að auka framleiðslu og koma henni til viðskiptavina er öfugur: Því minna sem er framleitt og þeim mun meira sem er hvatt til aukinnar notkunar og því verr sem gengur að koma framleiðslunni til viðskiptavina, því meiri hagnaður. Lykilþættir í afkomu ríkissjóðs njóta góðs af.
Er þetta ekki alveg ljómandi góð samsæriskenning?
Ég ítreka að ég trúi því ekki að einhver aðili sitji á bak við tölvuskjá og kalli á þessar þjáningar fyrir fólk og fyrirtæki. En ef svo er þá kæmi það mér ekki á óvart.