Eftir Gunnar Kristin Þórðarson:
Vegna þeirra upplýsinga sem komnar eru fram í rannsókn stjórnvalda á stjórnarháttum fyrrum stjórnenda Innheimtustofnunar sveitarfélaga, vil ég koma eftirfarandi á framfæri.
Árið 2014 hafði Guðbrandur Jónsson, fyrrum skattrannsóknarfulltrúi, samband við okkur hjá Samtökum meðlagsgreiðenda og sagði okkur að ekki væri allt með felldu í fjárreiðum Innheimtustofnunar. Gögnum samkvæmt bað hann Innheimtustofnun um ársreikninga undanfarinna ára, sem bæði forstjóri og stjórn neituðu honum um. Hann kærði ákvörðun þeirra til kærunefndar upplýsingamála og eftir dúk og disk afhenti forstjóri stofnunarinnar hluta ársreikninganna en hélt eftir sjóðsstreyminu. Uppi varð fótur og fit í forsætisráðuneytinu því forstjórinn hafði þá reynt að beita kærunefndina blekkingum. Kærandinn er fyrrum skattrannsóknarfulltrúi og sá strax að sjóðsstreymið vantaði. Forstjórinn er þá kallaður á teppið og afhentir kærunefnd upplýsingamála ársreikninga ásamt sjóðsstreymi. Í öllum venjulegum lýðræðisríkjum hefði forstjóri opinberrar stofnunar verið rekinn á staðnum fyrir að blekkja æðri stjórnvöld. Þetta eitt og sér hefði átt að vekja grun eftirlitsaðilja og æðri stjórnvalda að forstjórinn hefði eitthvað að fela.
Árið 2013 höfðu stjórnvöld ákveðið að sameina Tryggingastofnun og Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem var eitt af meginmarkmiðum samtakanna. Þegar sú ákvörðun var tekin, hefðu stjórnendum Innheimtustofnunar að vera ljóst að fjárreiður stofnunarinnar yrðu tekin til skoðunar við sameingingu stofnunarinnar.
Árið 2015 kærði ég stjórnendur Innheimtustofnunar til sérstaks saksóknara fyrir fjármálamisferli. Sérstakur saksóknari er nú héraðssaksóknari og hefur mál fyrrum stjórnenda til rannsóknar nú. Vísaði hann málinu frá og nokkrum dögum síðar berst mér bréf frá Braga Axelssyni, forstöðumanni Innheimtustofnunar þar sem hann segir að hann, forstjórinn og aðrir starfsmenn muni íhuga að kæra mig til lögreglu vegna meiðyrða.
Merkjanlegar breytingar verða á rekstri Innheimtustofnunar árið 2015 samkvæmt ársreikningum, ársskýrslum og erindum Innheimtustofnunar til Jöfnunarsjóðs. Til að mynda fækkaði meðlagsgreiðendum um 2000 á einu bretti, sem aldrei hafði gerst áður. Hvað gerðist? Gufuðu þeir upp?
Við töldum þessar breytingar bæru þess merki að þar væru stjórnendur Innheimtustofnunar að þrífa skítinn eftir sig, enda var búið að ákveða að leggja stofnunina niður og undirritaður búinn að ásaka þá um fjármálamisferli á opinberum vettvangi. Við þetta má bæta, að þáverandi endurskoðandi stofnunarinnar frá KPMG var sakfelldur í héraðsdómi í Milestone málinu fyrir skapandi starfshætti.
Árið 2012 komst upp furðuleg samskipti Innheimtustofnunar við Jón stóra, þjóðþekktan misindismann og handrukkara og eiganda innheimtufyrirtækisins, Innheimta og ráðgjöf ehf. Á Facebook síðu stofnunarinnar býður Jón fram þjónustu sína, og Innheimtustofnun tekur vel í og segir þá báða veita góða þjónustu. Þá hringir í okkur foreldri meðlagsskuldara sem bjó í föðurhúsum, og sagði okkur frá því að einn góðan veðurdag hafi Jón stóri, birst í gættinni vatnsgreiddur og í jakkafötum og rétt honum kurteisislega kröfubréf frá Innheimtustofnun. Ég fór á fund mannsins með mynd af þessum manni og fékk það stafest að um sama mann væri um að ræða.
Þegar samtökin höfðu reynt að vekja athygli á ársreikningum Innheimtustofnunar, hringdi í okkur nefndarmaður Jöfnunarsjóðs og spyr okkur út í misræmi í ársreikningunum. Af hverju gerði hann það?
Í kjölfarið óskaði ég eftir greinargerðum Innheimtustofnunar til Jöfnunarsjóðs, og fékk ég greinargerðirnar sendar til mín, þrátt fyrir hörð mótmæli forstjóra Innheimtustofnunar. Af hverju var hann á móti því?
Svo ber við að 6 árum síðar, að ráðuneytið gerir sérstakan samning við ríkisendurskoðanda og fær hann til að rannsaka Innheimtustofnun til ársins 2015. Sá forstjóri sem nú situr í sakamannabekk tók við stjórnartaumunum árið 2009. Af hverju vildi ráðuneytið ekki rannsaka Innheimtustofnun til ársins 2009? Ríkisendurskoðandi má ekki rannsaka stofnanir sveitarfélaga nema samkvæmt beiðni ráðuneytis. Ríkisendurskoðandi mátti því ekki rannsaka Innheimtustofnun frá árunum 2009 til 2015.
Ég sem hef fylgst með óþverrabrögðum fyrrum stjórnenda allt frá árinu 2012 hlýt að komast að þeirri niðurstöðu, að samantekin ráð séu um að rannsaka ekki fjárreiður stofnunarinnar á árunum 2009 til 2015. Ef spilling hefur átt sér stað innan stofnunarinnar hefur hún fyrst og fremst átt sér stað á þessum árum. Fyrning fjármálaglæpa eru 6 ár og ég hnýt við þá tímasetningu, að sakamálarannsókn hefjist á frjárreiðum Innheimtustofnunar sléttum 6 árum eftir að öllum hefði mátt vera ljóst að misjafnlega hefði verið farið með opinbert fé innan stofnunarinnar. Sex árum fyrir sakamálarannsókn þrammaði ég á milli eftirlitsaðilja og ráðuneyta og benti þeim á að Innheimtustofnun væri eftirlitslaust og sjálfstætt stjórnvald sem veltir milljörðum á ári hverju. Þar sem miklir peningar eru og ekkert eftirlit, þar eru yfirgnæfandi líkur á spillingu. Í stjórnsýslufræðum er það kallaður freistnivandi (e. moral hazard).
Niðurstaða mín er sú að fyrrum stjórnendur Innheimtustofnunar eru ekki þeir einu sem hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Ég vil nefna í þessu sambandi, að ég lét mér ekki nægja að kæra stjórnendur Innheimtustofnunar til sérstaks saksóknara, heldur sendi ég Umboðsmanni Alþingis, Ríkisendurskoðanda, ráðuneyti og forsætis- og eftirlitsnefnd Alþingis áskorun um að taka fjármál Innheimtustofnunar til skoðunar. Ráðuneytið vissi, eða hefði mátt vita að fjármálamisferli hefðu átt sér stað. Hvort ástæðan er ábyrgðarleysi, pólitísk spilling eða vanhæfni, veit ég ekki, en fátt annað kemur til greina.
Höfundur er stjórnsýslufræðingur og fyrrum formaður Samtaka meðlagsgreiðenda