Að þykjast er allt sem þarf

frettinKrossgötur, Þorsteinn SiglaugssonLeave a Comment

Eftir Þorstein Siglaugsson:

Svonefnd Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna liggja til grundvallar ESG stöðlum, eða sjálfbærnistöðlum, sem öllum fyrirtækjum verður senn skylt að fylgja. ESG stendur fyrir “Environmental, Social and Governance” og er ætlað að mæla framlag fyrirtækja til umhverfis og samfélags ásamt því hvort starfsemi þeirra endurspegli kröfur um jafnrétti allskyns minnihlutahópa, raunverulegra eða ímyndaðra.

ESG – feitur biti fyrir ýmsa

Með nýjum kröfum Evrópusambandsins sem senn verða innleiddar hérlendis munu fyrirtæki ekki geta vikist undan því að skila skýrslum um hvernig þau uppfylla umrædda staðla. Kröfurnar lúta í raun ekki aðeins að fyrirtækinu sjálfu, heldur þarf það einnig að sjá til þess að birgjar þess uppfylli kröfurnar. Í fyrstu ná þessar skýrslugerðarkröfur aðeins til stærri fyrirtækja, en þess verður ekki langt að bíða að smærri fyrirtæki og jafnvel einyrkjar þurfi að standa í þessu einnig. Þannig getur fyrirtæki fallið á prófinu ef múrari sem það ræður til vinnu hefur trassað að skila skýrslunum.

Innleiðing ESG staðlanna er feitur biti fyrir alls kyns ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfa sig í að ráðleggja stjórnendum og eigendum fyrirtækja hvernig þeir geti best farið að því að uppfylla, eða látast uppfylla staðlana, afla gagna, skrifa þykkar skýrslur, sem gjarna eru gefnar út á glanspappír og staldra við ólesnar í hillum þar til þær enda í landfyllingu.

Hver þú ert skiptir engu – aðeins hver þú þykist vera

Nýverið vakti það athygli að Tesla, fyrirtæki sem verið hefur í fararbroddi í svonefndum orkuskiptum fékk aðeins 37 af 100 punktum mögulegum í mati S&P hlutabréfavísitölunnar á frammistöðu í umræddum málaflokkum. Þrátt fyrir mikilvægi Tesla í umhverfismálum virðist hafa vegið þyngra að fyrirtækinu er að mestu stjórnað af hvítum karlmönnum og stjórnendur hafa ekki eytt miklum tíma né fjármunum í að styðja við ýmiss konar baráttuhópa eða velja sér birgja á grundvelli staðsetningar í þróunarlandi fremur en gæða.

Þar sem sífellt fleiri fjárfestingasjóðir gera kröfur um að fyrirtæki sem þeir fjárfesta í uppfylli þessa staðla, og bankar gera einnig slíkar kröfur í auknum mæli, geta þau sem falla á prófinu lent í vanda með fjármögnun.

Philip Morris þarf hins vegar ekki að hafa áhyggjur af þessu. Philip Morris framleiðir sem kunnugt er sígarettur og hlaut 84 stig af 100 í nýjasta mati á frammistöðu við að bæta heiminn. Sú frammistaða grundvallast vitanlega ekki á framleiðsluvöru fyrirtækisins sem er meginorsök ótímabærra dauðsfalla í Bandaríkjunum og verður fleirum að aldurtila en áfengi, eiturlyf og umferðarslys samanlagt. Kolefnisfótspor iðnaðarins er einnig stórt og neikvæð umhverfisáhrif hans almennt mikil. Tóbaksræktunin fer að mestu leyti fram í þróunarlöndum og veldur skógaeyðingu og uppblæstri.

En ekkert af þessu skiptir máli þegar kemur að hinum jákvæðu áhrifum á “samfélag, sjálfbærni og jafnrétti”. Því fyrirtækið styður að eigin sögn við kvenkyns tóbaksræktendur, berst gegn “kerfisbundnu kynþáttamisrétti” (en lætur vera að minnast á að svartir Bandaríkjamenn eru hlutfallslega líklegustu fórnarlömb varningsins) og leggur mikla áherslu á að berjast gegn klaufalegu orðfæri (e. microagression) og ráða til sín fólk með fjölbreyttan bakgrunn.

ESG er alvarleg ógn við tjáningarfrelsið

ESG stöðlunum er vitanlega ekki síst beint gegn tjáningarfrelsinu. Til að uppfylla skilyrðin þurfa fyrirtæki að hafa hemil á “rangupplýsingum” og “hatursorðræðu” innan vébanda sinna, fjölmiðlar og samfélagsmiðlar sem hyggjast uppfylla skilyrðin verða að hindra orðræðu sem ekki er í takt við samþykkt viðhorf stjórnvalda á hverjum tíma. Ný aðgerðaáætlun Evrópusambandsins gegn “rangupplýsingum” er m.a. réttlætt með ESG stöðlunum, en samkvæmt henni ber samfélagsmiðlum og fjölmiðlum að þagga niður umræðu sem stjórnvöldum er ekki að skapi. Eflaust verður þátttaka í hatursorðræðunámskeiðum forsætisráðherra skilyrði þess að íslensk fyrirtæki uppfylli staðlana.

Í árdaga umræðunnar um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja var það starfsemi þeirra sem mestu réði, hún yrði að vera samfélagslega ábyrg. Tóbaksfyrirtæki þóttu því ekki eftirsóknarverðir vinnuveitendur hjá ungum útskriftarnemum í viðskiptaháskólum kringum síðustu aldamót, og kynningarbása þeirra heimsóttu fáir. En nú er öldin önnur. Tóbaksiðnaðurinn, áfengisframleiðendur og framleiðendur klasasprengna, eiturgass og pyntingatóla þurfa ekki að örvænta. ESG kemur þeim til bjargar. Í stað samfélagslegrar ábyrgðar koma áferðarfallegar skýrslur. Raunveruleg áhrif starfseminnar skipta engu máli lengur, séu aflátsbréfin aðeins keypt dýrum dómum. Að þykjast er allt sem þarf.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 15.6.2023

Skildu eftir skilaboð