Breskir bankar ráðast gegn lýðræðinu – Hvað um þá íslensku?

frettinErlent, Innlent, KrossgöturLeave a Comment

Stjórn Málfrelsis skrifar:

Fyrir nokkrum dögum neyddist Alison Rose, bankastjóri NatWest Group Plc., eiganda Coutts bankans, sem lokaði bankareikningum breska stjórnmálamannsins Nigel Farage vegna stjórnmálaskoðana hans, til að segja af sér. Rose hafði lekið upplýsingum um lokun reikninga Farage til fjölmiðla. Bankinn staðhæfði í fyrstu að reikningum hans hefði verið lokað vegna ónógrar innstæðu, en í ljós kom að þetta voru ósannindi. Reikningum Farage var lokað vegna þess að stjórnendur bankans voru honum ósammála í stjórnmálum, eða vildu í það minnsta sýnast vera það. Nánar tiltekið byggði ákvörðunin á skýrslu sem bankinn gerði um Farage, þar sem staðhæft var að hann kynti undir útlendingahatri, kvenhatri og kynþáttafordómum, auk þess sem skoðanir hans bæru fylgispekt við stefnu Margrétar Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands vitni. Með öðrum orðum eru nú stefnumál eins áhrifamesta forsætisráðherra Bretlands orðin að ástæðu til að neita fólki um bankaviðskipti!

Nigel Farage ákvað að fara með málið í fjölmiðla, líkt og Toby Young, formaður Free Speech Union gerði síðastliðið haust, þegar PayPal greiðslumiðlunin lokaði reikningi samtakanna, reikningi The Daily Sceptic miðlisins og persónulegum reikningi hans. Young vakti athygli þingmanna og ráðherra á málinu og eftir að viðskiptaráðherrann atyrti PayPal voru reikningarnir loks opnaðir að nýju.

Rótin að þessari athafnasemi banka og greiðslumiðlunarfyrirtækja er sú að þessi fyrirtæki hafa í sívaxandi mæli tekið að líta á það sem hlutverk sitt að taka þátt í stjórnmálabaráttu. Þau hafa sett sér markmið sem eru ekki viðskiptalegs eðlis, heldur snúast um að ýta undir tilteknar skoðanir, en andæfa öðrum. Farage og Young eru fráleitt einu aðilarnir sem orðið hafa fyrir barðinu á þessu. Ástæða þess að mál þeirra hlutu athygli er sú ein að um er að ræða áhrifamikla einstaklinga sem eiga greiðan aðgang að fjölmiðlum. En líkt og Young hefur verið óþreytandi að vekja athygli á, hafa fjölmargir aðrir þurft að fást við það sama, að lokað hafi verið á viðskipti þeirra vegna þess að bankastjórnendum hugnast ekki skoðanir þeirra. Í tilfelli Farage og Young voru það hægrisinnaðar stjórnmálaskoðanir sem gerðu útslagið, en nýjustu fréttir frá Bretlandi herma að nú hafi banki nokkur lokað á viðskipti Ginu Miller, formanns smáflokksins True and Fair Party, sem berst fyrir því að Bretar gangi að nýju í ESB, gegn spillingu og fyrir endurnýjun í stjórnmálum.

Í nútímasamfélagi er aðgangur að bankaviðskiptum grundvallarþáttur í lífi flestra. Hann getur jafnvel verið forsenda þess að fólk geti yfir höfuð framfleytt sér. Það er því grafalvarlegt mál þegar fjármálastofnanir og greiðslumiðlunarfyrirtæki taka að hegða sér eins og einhvers konar siðgæðisverðir og útiloka fólk frá viðskiptum án þess að fyrir því séu neinar viðskiptalegar forsendur, heldur vegna skoðana þess. Slík háttsemi má einfaldlega ekki líðast. Skoðana- og tjáningarfrelsi eru grundvallarforsendur lýðræðislegs samfélags og fjármálastofnanir, sem gegna mikilvægu hlutverki sem innviðir samfélagsins, geta ekki leyft sér að ráðast gegn rótum lýðræðisins með þessum hætti.

Stjórn Málfrelsis, samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, hefur af framangreindu tilefni ákveðið að senda forstjórum íslensku viðskiptabankanna bréf, þar sem óskað er svara við því hvort háttsemi af þessu tagi sé stunduð hér, eða hvort hún sé áformuð.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 29.7.2023

Skildu eftir skilaboð