Björn Bjarnason skrifar:
Ástæða er til að velta fyrir sér hvort leita þurfi alla leið til Írans til að sjá opinbert ofstæki vegna trúarbragða, hvort ekki sé í raun nóg að ræða ástandið í Reykjavík.
Reglulega eru okkur sagðar fréttir frá Íran um hvernig múslímskir leiðtogar landsins beita skoðanalöggum með prik og jafnvel skotvopn, til að tryggja að farið sé að trúarlegum siðum í daglegu lífi og á götum úti.
Fjölmiðlamönnum finnst slík afskipti í nafni trúarbragða og til að framfylgja þeim öfgafull og fjarlæg og þess vegna fréttnæm.
Ástæða er til að velta fyrir sér hvort leita þurfi alla leið til Írans til að sjá opinbert ofstæki vegna trúarbragða, hvort ekki sé í raun nóg að ræða ástandið í Reykjavík og hvernig meirihluti stjórnar hennar hefur markvisst beitt sér gegn því að skólabörnum sé kynnt trúin á Jesú Krist í kirkjum borgarinnar.
Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem dreift er laugardaginn 5. ágúst ræðir Kolbrún Bergþórsdóttir við Kristrúnu Heimisdóttur, lögfræðing og annan tveggja varaforseta kirkjuþings. Kristrún segir:
„Svo verður ekki horft fram hjá því að það er stórhættulegt hvernig skoðanalöggur halda umræðunni í heljargreipum. Þess vegna er svo margt sem erfitt er að ræða; allt frá íslenskri tungu yfir í kristindóminn og allt þar á milli. Þegar við bætist að fjölmiðlum fækkar þá verðum við að tala og tala hátt og ekki láta þessa skoðanakúgun stjórna umræðunni.“
Þá segir í samtalinu að í framboðsræðu sinni á kirkjuþingi á síðasta ári hafi Kristrún sagt að Jesús væri besti áhrifavaldurinn en búið væri að banna börnum aðgang að honum en öll mættu þau horfa á TikTok, kínverska samfélagsmiðilinn.
Kristrún segir einnig:
„Þetta hangir saman við þá þróun sem varð eftir að borgarmeirihlutinn í Reykjavík ákvað að setja strangar reglur um kirkjusókn grunnskólabarna og prestarnir upplifðu það eins og væri búið að loka á þá. Þessi afstaða í Reykjavík skapaði þá hugmynd víða um land að kirkjuheimsóknir væru bannaðar með landslögum.“
Þessi orð sýna að ástæðulaust er fyrir fjölmiðlamenn hér á landi að fara alla leið til Írans í leit að öfgafréttum um afskipti stjórnvalda af trúariðkun borgara sinna. Þeim dugar að kynna sér ástandið í Reykjavík í boði meirihluta borgarstjórnar og afleiðingar þess.
Fámennum hópi með öfgaskoðanir gegn kristni og kirkju tókst að fá meirihluta borgarstjórnar á sitt band og setja bann við ferðum grunnskólabarna í kirkjur borgarinnar til að kynnast boðskap Krists. Sumir prestar reyna að fara í kringum þetta bann með því að bjóða börnum að kynnast þjóðtrúnni eða þjóðmenningunni í kirkjum sínum.
Þetta er alvarlegasta afleiðing þess að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna. Hefði einhverjum dottið í hug fyrir 30 árum að sveitarfélög mundu beita valdi sínu á þennan hátt hefði verið sleginn varnagli til að koma í veg fyrir það í grunnskólalögunum. Það er hins vegar aldrei of seint fyrir alþingi að taka upp vörn fyrir kristni og menningararf þjóðarinnar hvað sem sjálfstæði sveitarfélaga eða þjóðkirkjunnar líður.