Fjóluhærða tónskáldið, píanistinn og einhverfa, japansk-íslenska baráttukonan Mamiko Dís Ragnarsdóttir segir enn í dag ríkja fáfræði meðal almennings og mikla skömm hvíla yfir því að tilheyra hópi einhverfra, sem aftur hái þeim mjög sem hafa hlotið einhverfugreiningu hérlendis.
Mamiko, sem er hámenntað tónskáld og klassískur píanóleikari, lauk B.A. prófi í tónsmíðum hjá Listaháskóla Íslands árið 2008 og útskrifaðist í framhaldi með gráðu í klassískum píanóleik hjá Tónskóla Sigursveins árið 2010, en að síðustu lauk Mamiko miðprófi í jasspíanóleik árið 2015.
Hefur gefið út fimm breiðskífur
Mamiko hefur þegar gefið út einar fimm breiðskífur; þrjár klassískar útgáfur, eina poppútgáfu og aðra þjóðlagaútgáfu. Nýjasta breiðskífa Mamiko, sem ber heitið Waltzes: All Year Round, kom út í apríl á þessu ári og samanstendur af 12 píanóvölsum þar sem heyra má þýska trommuleikarann Benji spila undir á tíu af tólf tónverkum breiðskífunnar.
Melódísk breidd í verkum Mamiko er fersk og forvitnileg. Ber hæst að nefna poppsíngúls og tónverkin „Skrýtin, „Itsuka“ og baráttusmellinn „Aldrei gefast upp“ sem kom út fyrir tveimur árum. Í honum segir hún „get-istum“ (e. ableists) huglægt stríð á hendur, en hugtakið „get-isti“, er listræn nýyrðasmíði unga tónskáldsins og er lýsandi hugtak yfir þá sem reyna að kúga, eða knýja fram atferlismótun hjá einhverfum, svo þau hin sömu megi falla inn í „normal-boxið“ án þess að taka önnur sjónarmið en sín eigin til greina.
Smellurinn „Aldrei gefast upp“ sem kom út fyrir tveimur árum, ber þess sterk og einlæg merki að vera hvatningaróður til þeirra einhverfu einstaklinga sem hafa staðið frammi fyrir hindrunum á borð við þær sem Mamiko fjallar um og segir hún smellinn vera hvatningu til einhverfra og um leið vitræna áskorun í garð get-ista, sem vilji tala fyrir og ákvarða alla hagi einhverfa. Aðspurð segir hún hugtakið „ableism“ (get-isma) merkja „fötlunarfordóma”... og það sjónarmið að ófatlaðir (þeir sem „geta“) séu æðri ,,en ég er ekki hrifin af því orði, kannski af augljósum ástæðum, því fólk gæti móðgast eða eitthvað,“ skýrir Mamiko út. „Slatti af fólki telur sig þó bera hag hinna fötluðu fyrir brjósti, án þess að hlusta á þau fötluðu almennilega. Líklega myndi þetta sama fólk svo ekki taka það í mál að vera haldið fötlunarfordómum.“
Segir hugtakið „fordóma“ vera sterkt orð og vandmeðfarið að velja réttu orðin
„En ég veit ekki ... ég hélt að jafnvel væri betra að snúa hugtakinu upp í „get-ista“ (e. ableist) eins og ég syng um í laginu mínu [innsk. Aldrei gefast upp]. Get-isti er eiginlega nýyrði sem ég bjó til. Það er ekki vilji minn að móðga neinn, en ég verð að benda á að einhverfir þurfa oft að ferðast gegnum allt sitt líf, með því að fela og bæla alla eiginleika sem öðrum gætu þótt skrýtnir eða óviðeigandi og sú bæling hefur auðvitað svo bara skelfilegar afleiðingar á sálarlíf þeirra sem eru einhverf.“ - Mamiko
Mamiko þykir ótrúlega sárt að sjá, áratug eftir að henni lærðist sjálfri að hún væri einhverf, að enn væru aðrir einhverfir einstaklingar á fullorðinsárum árangurslaust að leita greiningar, án þess að mark væri tekið á þeim sömu. „Til dæmis er enn verið að hólfa einhverfa í flokka eftir greindarfari og getu þeirra til að bæla og fela hvernig þau í raun eru. „Get-istar“ er svo fólkið sem reynir að kúga eða atferlismóta „skynsegin“ fólk inn í „normal“-boxið í stað þess að hlusta á einstaklingana og mæta þeim á miðri leið,“ útskýrir hin melódíska Mamiko, sem er ein fyrsta fullorðna konan hérlendis sem steig fram opinberlega sem einhverf kona, en Mamiko er fædd þann 23. september árið 1984 og ber sviðsnafnið Dís þegar hún bregður sér í hlutverk fjóluhærðu tónlistardísarinnar. „Get-istarnir vilja tala fyrir okkur og telja sig alltaf vita hvað okkur er fyrir bestu”, heldur Mamiko áfram.. „en við vitum það auðvitað sjálf langbest.” Og unga, fjóluhærða tónlistardísin mælir frá eigin brjósti, en tónlistin reyndist bjargráð þessa melódíska og fjölhæfa tónskálds á hennar yngri árum.
Þakkar tónlistinni lífið
„Ég þakka tónlistinni það að ég er enn á lífi. Því áður en ég áttaði mig á því að ég er einhverf og lærði að elska sjálfa mig á eigin forsendum, þá hataði ég sjálfa mig alveg ótrúlega mikið. En mér fannst það eitt að geta sungið, spilað á píanó og samið lög, einhvern veginn réttlæta tilvist mína hér á jörðu, því að öðru leyti þá virtist mér lífið vera alveg vonlaust.“ - Mamiko
Baráttumál Mamiko, sem endurspeglast oft ljóslega í liprum tón- og textasmíðum hennar, snúast því jafnt um viðurkenningu á tilverurétti einhverfra og einnig um almenna viðurkenningu á sérkennum fullorðinna einhverfra einstaklinga og hefur hún, bæði í orði og á borði gegnum tónverk sín, hvatt einhverfa til að stíga fram á eigin forsendum. „Að þau fái að vera þau „skrýtnu“ sjálf,“ skýrir hún út. „Greiningar á einhverfu ættu að vera óþarfar, að sama skapi og fólk er ekki greint með „kynvillu“ lengur. Þau einhverfu vita fullvel hver þau eru og sjá sjálf um sínar skilgreiningar.“
Mamiko hefur notið mikilla vinsælda meðal yngri kynslóða á TikTok og hefur, allt frá árinu 2020, haldið út TikTok aðgangi undir notendanafninu @mamikoragnars.
Þessi unga og þróttmikla tónlistarkona á sannarlega bjarta, melódíska framtíð fyrir höndum en Mamiko hélt fjölsótta tónleika á Menningarnótt þetta árið sem vöktu stormandi lukku og yfirgaf fjóluhærða tónlistardísin sviðið með hópi hrifinna aðdáenda sem öll vildu fá ljósmynd með ungu baráttukonunni.
Hægt er að fylgjast með Mamiko á Spotify undir O Dís og undir o Mamiko Dís Ragnarsdóttir og á Youtube aðgang hennar @MamikoRagnarsdottir