Reyndi New York Times að koma af stað þriðju heimstyrjöldinni?

frettinErlent, Fjölmiðlar, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Samkvæmt könnun sem Gallup og Knight Foundation birtu fyrr á þessu ári kemur fram að Bandaríkjamenn bera lítið traust til fjölmiðla sinna og taldi helmingur aðspurðra að fjölmiðlar reyndu viljandi að afvegaleiða fólk.

Vafasöm fréttamennska NYT

Eftir að það sem menn telja nú að hafi verið eldflaug frá Islamic Jihad lenti á bílaplani við spítala á Gaza hinn 17. október, brenndi þar bíla og deyddi fólk en virðist ekki hafa ollið frekari skemmdum var fyrirsögn New York Times: „Ísraelskt flugskeyti lendir á spítala og grandar hundruðum, segja Palestínumenn". Síðar viðurkenndi NYT að um of hefði verið treyst á upplýsingar frá Hamas, m.a. um að 500 manns hefðu látist. Það ámælisverðasta var þó að myndin sem fylgdi fréttinni var ekki af spítalanum, heldur af sundursprengdri byggingu í Khan Younis (sem stendur reyndar á myndinni) en fæstir munu hafa skoðað hana nákvæmlega.

Þessi frétt NYT fór á ljóshraða um heiminn og fæstir efuðust um sannleiksgildið. Daginn eftir fóru svo að birtast gögn sem bentu til að flaug frá Islamic Jihad hafi misst flugið og hafnað á bílastæðinu, enn full eldsneytis og með virka sprengihleðslu. Í Íran var flaggað svörtum fána með texta úr Kóraninum hinn 17 október á grafhýsi Ímams Reza og töldu sumir bloggarar það vera stríðsyfirlýsingu gegn Ísrael og Bandaríkjunum en AP hefur það eftir hugveitu í Washington að jíhadistar séu vanir að nota annan texta séu þeir að lýsa yfir stríði og Hamid Dabashi sérfræðingur í írönskum fræðum við Columbia háskólann í New York segir að það merki aðeins samstöðu með Palestínumönnum. „Ég get ekki séð að það segi annað en hið augljósa: að stjórnvöld í Íran styðji Hamas og Islamic Jihad," skrifaði hann í tölvupósti. „Nákvæmlega það".

Fréttamennska NYT er oft vafasöm. Blaðið lagði hornsteininn að stofnun BLM (hóps svartra LBGTQ kvenna sem í krafti fjölþátta undirokunar sinnar töldu sig eiga allt fé er safnaðist til styrktar svörtum) með umfjöllun sinni um dauða Trayvon Martin. Vaktmaðurinn sem skaut Trayvon til bana var sýknaður - áverkar á honum bentu til að hann hefði skotið í sjálfsvörn. George Zimmerman taldi sig rómanskan ameríkana - en NYT útmálaði hann sem hvítan rasista og NBC hjálpaði til með því að birta breytta útgáfu af símtali Zimmerman til lögreglu. Sú útgáfa lét líta svo út sem Zimmerman hefði eingöngu haft afskipti af Martin af því hann hefði verið svartur.

Pólitískur hliðarhalli bandarískra fjölmiðla - þrjú dæmi

Þessi hliðarhalli bandarískra fjölmiðla kom sérlega vel í ljós við dauða George Floyd. Lögreglumaðurinn Derek Chauvin var dæmdur í 22 og hálfs árs fangelsi fyrir að myrða hann, jafnvel þótt krufningaskýrslan sýndi að Floyd hefði verið með lungnabjúg, covid-19, alvarlega æðakölkun í hjarta, háþrýsting, hjartastækkun og lífshættulegt magn af Fentanyli í blóðinu, auk annarra efna s.s. Methamphetamíns sem er nú ekki gott fyrir hjartað. Ekki er ólíklegt að Floyd hafi einfaldlega fengið hjartaáfall en vegna stöðugrar umfjöllunar fjölmiðla um málið og æsingsins í þjóðfélaginu kom auðvitað ekki annað til greina að sakfella Chauvin og dæma hann í margra ára fangelsi.

Það er af mörgu að taka en að ásaka unga kaþólska drengi um rasisma að ástæðulausu eins og pressan gerði öll í janúar 2019, er frekar lítilmótlegt. Hópur þeirra beið eftir rútu við minnismerki Lincolns í Washington DC er gamall indíani gekk til þeirra og barði trumbu. Hinn 16 ára Nicholas Sandman (sem framdi þá ófyrirgefanlegu synd að vera með Trump húfu) var ásakaður um að hæða gamla manninn og sýna honum lítilsvirðingu og af stað fór fjölmiðlafár gegn honum. Síðar kom í ljós að drengirnir höfðu nákvæmlega ekkert til saka unnið og eftir að Sandman stefndi fjölmiðlunum þá hafa CNN, NBC og Washington Post gert við hann dómssátt með peningagreiðslu. 

Önnur falsfrétt er tengist kaþólikkum er fréttin um allar ómerktu grafirnar sem áttu að hafa fundist 2021 við kaþólskan heimavistarskóla í Bresku Kólumbíu í Kanada. BBC sló upp fyrirsögninni: „Kanada: 751 ómerkt gröf finnst við heimavistarskóla". Þessi frétt um að kaþólikkar hefðu drepið börn frumbyggja með illri meðferð og grafið þau á laun til að dylja glæpinn fór um heiminn sem sannleikur. Trudeau lét flagga í hálfa stöng á öllum opinberum byggingum og páfinn gaf út opinbera afsökunarbeiðni fyrir hönd kaþólsku kirkjunnar. Lofað var fé til að rannsaka málið, og fé til að bæta eftirlifandi börnum meinta illa meðferð en þegar engar grafir, hvað þá beinagrindur, höfðu fundist ári síðar þá fóru að renna tvær grímur á suma.

Einn „afneitaranna" er Dorchester Review. Í grein frá því í júní í sumar segir frá því að það sem Dr. Sarah Beaulieu taldi vera 215 ómerktar grafir í Kamloops sé skólplosunarkerfi sem grafið var 1924 og Nina Green, höfundur greinarinnar, vill gjarnan fá uppgefin nöfn þeirra fimm fornleifafræðinga sem skrifuðu undir að hér væri um grafir að ræða. Í opinberri skýrslu  er kom út stuttu áður en greinin er skrifuð er haft eftir ónafngreindum heimildarmanni að enn væri lifandi fólk sem hefði grafið börnin. Greinarhöfundur vill að dómsmálaráðherra Kanada rannsaki þetta mál allt, hver hafi ráðið Dr. Beaulieu og hvort einhver börn hafi verið grafin á laun. Það gangi ekki að slengja slíkri sögu fram en koma ekki með neinar sannanir.    

Það er valt að treysta bandarískum fjölmiðlum, sem og öðrum fjölmiðlum í þessum heimi. Fréttamenn virðast fremur stjórnast af pólitískum aktívismi en sannleiksleit og ef tilgangur fréttar NYT var ekki að koma af stað stríði Írans, Hútanna í Jemen og Hezbollah í Líbanon gegn Ísrael sem NATO hefði svo getað dregist inn í þá er blaðið altént sekt um afar kléna fréttamennsku.

Skildu eftir skilaboð