Eitt af mörgum vandamálum Pútins

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Það getur ekki verið auðvelt að halda Rússneska ríkjasambandinu saman því ríkin eru mjög ólík. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur ekki áhrif alls staðar; ekki á þeim svæðum er múslimar byggja og um aldamótin 2000 börðu Rússar niður uppreisn Tsétsena. Grozny var sprengd í tætlur og 5000-8000 almennir borgarar eru taldir hafa látist.

Yfirvöld virðast hafa tekið þá stefnu að banna allt sem gæti flokkast sem guðlast og því fengu þrjár ungar konur í Pussy Riot fangelsisdóm fyrir pönkmessu sína fyrir altari Kristkirkjunnar í Moskvu 2012. Þær voru dæmdar í tveggja ára fangelsi fyrir „óspektir er orsökuðust af trúarlegu hatri". Pétur G. Markan á Biskupsstofu hefði trúlega lent bak við lás og slá ef rússneskar reglur giltu hér.

Því var það er myndband af ungum Krímverja að brenna Kóraninn fór í dreifingu á Telegram í sumar þá brugðust yfirvöld hart við og meintur sökudólgur, hinn 19 ára Nikita Zhuravel, sem játaði (eða var látinn játa) að Úkraínumenn hefðu borgað sér fyrir, var sendur til Tsétseníu þar sem málið skyldi tekið fyrir því þarlendir menn höfðu móðgast og eignuðu sér glæpinn. Síðar birti hinn yfirlýsingaglaði leiðtogi Tsétsena, Ramzan Kadyrov, myndband þar sem sonur hans gekk í skrokk á fanganum og er Nikita kom fyrir rétt 13. október síðastliðinn mátti enn sjá ummerki barsmíða á andlit hans. Fleiri skulu ekki fá slíkar hugmyndir.

Nýverið réðst um 150 manna hópur inn á flugvöll í Dagastan vegna orðróms um að gyðingar frá Ísrael ætluðu að sækja um hæli þar. Nútíma pogrom virtist í uppsiglingu en engir ísraelskir ríkisborgarar fundust, flestir farþegar höfðu rússnesk vegabréf. Samkvæmt Russia Today voru fleiri en 80 handteknir og ríkisstjóri Dagestan fordæmdi æsingamennina harðlega, auk Pútins auðvitað, þeir hefðu kallað smán yfir sig og Kákasussvæðið og aðrir ríkjaleiðtogar múslima gerðu hið sama. Haft er eftir Ramzan Kadyrov að ef einhverjir Tsétsenar reyndu eitthvað svipað þá myndi þeim mætt með þrem varnaðarskotum upp í loftið en svo einu í höfuðið.

Allir trúarhópar skulu sem sagt njóta verndar í Rússneska ríkjasambandinu. Pútin hefur ásakað Vesturlönd og Úkraínu um að hafa reynt að skapa sundrungu með þessum lygafréttum af flóttamönnum frá Ísrael. Orðrómurinn virðist hafa komið frá Telegramrásinni Utro Dagestan sem hefur nú verið lokað. Myndbandinu af Kóranbrennunni var einnig dreift frá sömu rás sem er sögð tengd Ilya Ponomaryov, Rússa sem býr nú í Kíev, Úkraínu og er sagður eindreginn andstæðingur innrásar Rússa í landið svo kannski var hann einn ábyrgur.

Skildu eftir skilaboð