Líffræðin og árásin á pósthólfið

frettinGeir Ágústsson, Innlent, TransmálLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Um daginn vaknaði ég upp við að mín biðu mörg hundruð tölvupóstar á netfang sem allir geta auðveldlega rakið til mín. Mér fannst þetta athyglisvert og skrifaði um það litla færslu. Í kjölfarið fékk ég nokkur skilaboð frá aðilum sem höfðu lent í því sama eða gátu sagt frá einhverju svipuðu hjá öðrum. Allar frásagnir höfðu það sameiginlegt að fjalla um einstaklinga sem hafa gagnrýnt fullyrðingar um að með yfirlýsingunni einni geti einstaklingar skipt um kyn og einnig gagnrýnt að börn, sem mega hvorki drekka né reykja né stofna til skulda né horfa á bíómyndir með Sylvester Stallone, megi velja að fara á óafturkræfa lyfjakúra til að handtaka kynþroska sinn.

Það myndaðist með öðrum orðum ákveðið munstur: Þeir sem gagnrýna þessi nýju trúarbrögð mega eiga von á árásum á tölvupóstfang sitt.

Núna hefur flóð tölvupósta fjarað út í mínu tilviki. Öflug og nútímaleg póstkerfi gera slíkt auðvelt. Það er því upplagt að telja upp nokkur atriði, sem blasa við en er samt afneitað af sumum:

  • Kona er einstaklingur með leg og önnur líffæri sem karlmenn eru ekki með. Frjór kvenmaður getur fætt börn, en ekki aðrir.
  • Börn og unglingar upplifa oft óöryggi og óvissu um hvað er í gangi með hneigðir þeirra og líkama en eiga að fá að klára sinn kynþroska áður en lyfjasalar og skurðlæknar eru boðaðir á vettvang.
  • „Trans kona“ er einstaklingur sem er líffræðilega karlmaður en kallar sig eitthvað annað, og „trans maður“ er einstaklingur sem er líffræðilega kvenmaður en kallar sig eitthvað annað.
  • Búningsklefar viðkomandi eiga að miðast við líffræðina, ekki hugsanir. Til vara eru sérklefar víða til staðar sem eiga að forða litlum börnum frá því að þurfa að góna á kynfæri hins kynsins á ókunnugu fólki. 
  • Það hafa fáir einhverja sérstaka fordóma gegn fólki sem kallar sig hitt og þetta (mögulega reynir á þolinmæði vinahópsins, en það er önnur saga), og ég held að öllum sé alveg nákvæmlega sama hvaða bólfélaga fólk velur sér, á meðan þeir eru ekki börn. En þegar lyfjasölunum og skurðlæknunum er otað að börnum og unglingum þá spyrna sífellt fleiri við fótum, verðskuldað.

Nú er að sjá hvort mér bjóðist fleiri tilboð vegna svarts föstudags eða hvað það nú er sem á að fá mig til að yfirgefa líffræðina og gangast kynjafræðinni á hönd.

Það er að segja ef upptalning úr líffræðinni er ástæða þess að mér buðust svona margir ágætir tölvupóstar á sínum tíma. Við sjáum hvað setur.

Skildu eftir skilaboð