Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna

frettinGeir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Það má oft vera áhyggjufullur þegar þingmenn tala um að breyta þurfi löggjöf. Yfirleitt þýða slíkar breytingar hærri skatta, meira kostnaðarsamt eftirlit, skerðingar, boð og bönn, auknar heimildir ráðherra til að leggja á íþyngjandi reglugerðir og allskyns flókin völundarhús undanþága, leyfirveitinga og flækjustiga.

En mér var nýlega bent á undantekningu frá þessu.

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa nú lagt fram (og aðrir lýst stuðningi við) frumvarp til breytinga á lögum nr. 162/2006 um fjármögnun stjórnmálaflokka. Þar er lagt til að lækka ríkisstyrki til flokkanna (sem sumir eru ekki einu sinni á þingi) og hækka takmörk á frjálsum framlögum.

Segir í greinargerð við frumvarpið:

Það er eindregið mat flutningsmanna að sú þróun sem hafi orðið hér á landi vegna hárra framlaga hins opinbera til stjórnmálaflokka dragi úr stjórnmálastarfi flokka og tengslum þeirra við flokksmenn sína og við atvinnulífið, enda þurfa flokkarnir sífellt minna á þeim að halda í öruggum faðmi hins opinbera. Grundvöllur þess að stjórnmálaflokkar séu hornsteinn lýðræðis í landinu er sá að þar fari fram virk starfsemi og þjóðmálaumræða, en ríkiskostunin hefur dregið úr hvata flokkanna til að sinna því hlutverki. Það er öfugþróun enda eru stjórnmálaflokkar einungis skipulögð lýðræðisleg samtök fólksins sem þá myndar. Í framkvæmd hefur fjárstyrkur hins opinbera því hamlað starfsemi og sjálfstæði stjórnmálaflokka sem gengur þvert á upphaflegt markmið með setningu laganna. Þá hefur fjáraustur hins opinbera til stjórnmálaflokka síst dregið úr umfangsmikilli kosningabaráttu, eins og vonast var til með setningu laganna og er miklum fjármunum skattgreiðenda varið í auglýsingaherferðir stjórnmálaflokka.

Hérna tek ég undir hvert orð. Hér er líka við hæfi að rifja upp hvað Björn Jón Bragason benti nýlega á í pistli:

Styrkjunum er á endanum að mestu eytt í aðdraganda kosninga, en þeim er ekki varið til reglubundinnar starfsemi — til að styrkja lýðræði — eins og hugmyndin var kannski í upphafi.

Ég vona að þetta frumvarp nái fram að ganga. Núna er Íslendingum sagt að herða sultarólina á meðan ríkisstjórnin fer eins og sinueldur í gegnum alla varasjóði og leggur að auki á nýja skatta. Stjórnmálaflokkarnir eiga hér að sýna gott fordæmi.

Það verður spennandi og fróðlegt að sjá hvernig atkvæðin falla og afhjúpa þá þingmenn Alþingis sem vilja ræna þig til að fjármagna kosningaherferðir sínar.

Skildu eftir skilaboð