Þagnarsamsæri í Efstaleiti

frettinBjörn Bjarnason, InnlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Grein sína nú ritar Páll Steingrímsson til að benda á að fjölmiðlaþögnin um mikilvæga þætti málsins miði að því að gera hlut blaðamannanna og ríkisútvarpsins sem bestan.

Árum saman malla hér í réttarkerfinu rannsóknir sem eiga upphaf sitt í þætti rannsóknarblaðamanna ríkissjónvarpsins í nóvember 2019 um spillingu í Namibíu og viðskipti með veiðiheimildir þar í nafni Samherja. Hér kalla ýmsir fjölmiðlamenn innan og utan ríkisútvarpsins þetta Samherjamálið í Namibíu er þetta Fishrot-hneykslismálið sem nú er komið fyrir dómara. Málsmeðferð var fyrir jól frestað fram í mars að kröfu ákærðra. Samherji og enginn tengdur félaginu sætir ákæru í málinu.

Páll Steingrímsson skipstjóri.

Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, skrifaði greinar í blöð þar sem hann gagnrýndi málsmeðferð rannsóknarblaðamanna ríkisútvarpsins. Blaðamönnunum var sérstakt kappsmál að þagga niður í Páli Steingrímssyni. Eftir byrlun lá hann milli heims og helju. Á meðan hann var í því ástandi var síma hans stolið og efni hans afritað. Páll lýsir þessu á þennan hátt i grein í Vísi 4. janúar:

„Í máli, hvar ég er brotaþoli og einir fimm blaðamenn sakborningar, eru ótal gögn sem sýna fram á sérkennilega aðkomu Ríkisútvarpsins. Þar á bæ var keyptur sími í apríl 2021 með næstum því sama símanúmeri og mitt. Símanúmer Ríkisútvarpsins er óskráð og upplýsingar um það hvergi að finna, og hefur aðeins verið notað árið 2021, einkum til að eiga samskipti við andlega veikan einstakling. Þá liggur fyrir að viðkomandi einstaklingur afhenti starfsmanni Ríkisútvarpsins síma minn meðan ég lá í öndunarvél, en það kemur fram í upplýsingum frá héraðssaksóknara þegar viðkomandi leitaði þangað með aðstoð þáverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins. Efni úr símanum mínum, sem afhentur var starfsmanni Ríkisútvarpsins í Efstaleiti, rataði þaðan til annarra fjölmiðla og þaðan út í kosmósinn.“

Lögreglan á Norðurlandi eystra sem fer með rannsókn þessa alvarlega máls verst allra frétta af gangi þess. Í skjóli opinberu þagnarinnar reyna blaðamennirnir fimm að stýra opinberum umræðum sér í hag. Stig af stigi hafa þeir flækt stjórnendur ríkisútvarpsins, Blaðamannafélag Íslands og blaðamenn hér og þar í málið. Skipulega er séð til þess að aðeins annarri hlið þess sé haldið á loft.

Grein sína nú ritar Páll Steingrímsson til að benda á að fjölmiðlaþögnin um mikilvæga þætti málsins miði að því að gera hlut blaðamannanna og ríkisútvarpsins sem bestan.

Páll sendi tölvupóst til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra 1. júlí 2022 þar sem hann mæltist til þess að látið yrði af ónæði í garð fjölskyldu sinnar. Afrit fór til blaðamannanna Þórðar Snæs Júlíussonar og Aðalsteins Kjartanssonar á Heimildinni. Útvarpsstjóri og blaðamennirnir brugðust við með sameiginlegri kæru á hendur Páli. Lögregla rannsakaði málið en gerði ekkert frekar með kæruna.

Um þessar nýlegu málalyktir þagði Þórður Snær í áramótaþætti þegar hann var spurður frétta af rannsóknum lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Varð þögn hans Páli tilefni til að skrifa grein sína í Vísi.

Aðild stjórnenda ríkisútvarpsins að þessu samsæri þagnarinnar er furðuleg. Verri aðför en birtist í þessu máli hefur ekki verið gerð á þeirri stofnun.

Skildu eftir skilaboð