Umræða um hatursorðræðu er komin allt of langt

frettinInnlent, ViðtalLeave a Comment

Brynjar Níelsson segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé á ákveðinn hátt eins og lúbarinn hundur í ríkisstjórnarsamstarfinu. Brynjar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar segir að sinn gamli flokkur verði að hætta að gefa eftir ef ekki eigi illa að enda:

Sjálfstæðisflokkurinn er eins og kúgaður maki í hjónabandi

„Ég skal alveg viðurkenna það að við í Sjálfstæðisflokknum erum orðin ofboðslega máttlaus í þessu ríkisstjórnarsamstarfi og allt of eftirgefanleg. Við erum á ákveðinn hátt eins og kúgaður maki í hjónabandi sem lætur allt yfir sig ganga af því að hinn aðilinn öskrar eða fer í fýlu ef þú gerir það ekki. Við tiplum alltaf á tánum í kringum þetta frekjulið af ótta við að það megi ekki kjósa aftur. Í raun eins og lúbarinn hundur. Ég hef verið að segja við mína góðu félaga í flokknum að við verðum að hætta þessu og getum ekki endalaust verið eins og gólftuska í þessu samstarfi. Hvar annars staðar myndi það gerast að í þriggja flokka stjórn væri forsætisráðherrann í flokki sem mælist með 5% fylgi. Af hverju gerist það að langstærsti flokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfinu er ekki með forsætisráðuneytið í sex ár samfleytt? Það er greinilegt að fólk er almennt mjög upptekið af því að halda völdum, en á einhverjum punkti verður Sjálfstæðisflokkurinn að fara að hegða sér eins og stóri flokkurinn í þessarri ríkissstjórn. Það er ekki endalaust hægt að gefa allt eftir bara svo hægt sé að mynda einhverja stjórn,“ segir Brynjar sem telur marga í Sjálfstæðisflokknum vera á sömu skoðun og hann:

„Vandamál Sjálfstæðisflokksins er að flokkurinn er orðinn of upptekinn af því að samstarfið gangi upp. Flokkurinn er vanur því að vera í ríkisstjórn og þurfa að fara í málamiðlanir. Ég hef rætt þetta við marga félaga í flokknum og það er mikill undirtónn þess eðlis að það sé ekki endalaust hægt að gefa eftir. Á endanum gengur það ekki upp að gefa of mikið eftir. Það þarf á einhverjum punkti að standa í lappirnar og láta minni flokkana í stjórninni elta stóra flokkinn. Ef það þarf að gefa of mikið eftir er kannski bara best að leyfa þessu samstarfi að fara og leyfa fólkinu í landinu að kjósa aftur. Stjórnmálin í landinu eru orðin mjög litlaus af því að stjórnmálamenn eru sífellt að gefa afslátt af skoðunum sínum.“

Brynjar segir í þættinum að umræða um hatursorðræðu sé komin á mjög furðulegan stað og minni á það sem gerst hafi í einræðisríkjum í mannkynssögunni. Ákveðinn hópur vilji eigna sér hvað sé hatursorðræða og hvað ekki:

Saga fasisma er saga af fólki sem segist berjast fyrir góðum málsstað

„Staðan er orðin þannig að það á nánast að vera refsivert ef þú ert ekki á sömu skoðun og hópurinn sem vill eigna sér umræðuna. Oft finnst þessu fólki sjálfu svo alveg sjálfsagt að ráðast á einstaklinga á netinu og spyrja sig aldrei að því hvort það sé hatursorðræða. Þetta er ekki nýtt fyrirbæri og svona var þetta í gömlu ráðsstjórnarríkjunum. Þá var það landráð og hatursorðræða að tala gegn stjórnvöldum og meirihlutanum. Með því varstu að eyðileggja samfélagið og þá var notað orðið hatursorðræða eins og nú. Fyrsta skrefið var útilokun, svo var það fangelsun og svo var það bara Síbería. Það gleymist oft að allir einræðisherrar í gegnum tíðina hafa byrjað smátt og segjast alltaf vera að berjast fyrir mjög góðum málstað. Saga fasismans er saga af fólki sem í upphafi sagðist vera að berjast fyrir mjög göfugum málstað. Það er galið ef við ætlum að fara á þann stað að fólk megi ekki hafa ólíkar skoðanir. Þess háttar þróun er hættuleg ef hún fær að halda áfram án þess að neinn stígi niður fæti. Ef fólk sest niður og ræðir málin kemst það oft að því að það ber í raun minna á milli en fólk hélt. En ef það er farið beint í þessa hugsun um að þeir sem eru ósammála séu óvinir og vont fólk er erfitt að finna leiðina til baka.“

Brynjar hefur á undanförnum árum látið talsvert til sín taka á samfélagsmiðlum og hefur bæði stóran hóp fygjenda og stóran hóp fólks sem er mjög ósátt við hann:

„Það er áhugavert hvað það er mikið af ungu fólki sem kemur að máli við mig og hrósar mér fyrir sumt af því sem ég segi. Samræðan byrjar yfirleitt á því að viðkomandi segist ekki sammála mér um allt, en lýsir svo ánægju að ég þori að segja það sem ég er að hugsa og að margir séu að hugsa það sama. Ég segi alls ekki allt sem ég er að hugsa á netinu og alltaf þegar ég sé að ég hef farið fram úr mér sé ég að mér og tek skref til baka. En ég myndi aldrei hafa uppi sterk orð um fólk sem hefur ekki sjálft verið mikið að láta til sín taka á netinu. Það kemur fyrir að mér blöskrar svo ofstopinn í ákveðnu fólki að ég get ekki haldið aftur af mér að segja það sem mjög margir eru að hugsa, en fæstir þora að segja. Ég get alveg skilið að fólk verði stundum fúlt út í mig, en ég reyni að beina orðum mínum eingöngu að þeim sem hafa sjálfir verið að hjóla í aðra á netinu. Ég reyni nú yfirleitt að vera með léttan undirtón þegar að ég er að atast í þessu fólki, enda gerir reiði manni ekkert gott.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Brynjar og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Skildu eftir skilaboð