Íslensk blaðamennska í gíslingu fimm sakborninga

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Í gær var neyðarfundur Blaðamannafélags Íslands. Formaðurinn, Sigríður Dögg, sjálf löskuð vegna skattsvika, berst fyrir hagsmunum vafagemsa í eigin röðum.  Tilkynnt var um ,,vitundarherferð um mikilvægi blaðamennsku." Markmiðið er að sannfæra almenning um að allt sé með felldu í íslenskri blaðamennsku. En það er öðru nær. Í raun ætti framtakið að heita ,,vitundarherferð til stuðnings grunuðum um glæpi."

Íslensk blaðamennska er gíslingu fimm blaðamanna á RÚV og Heimildinni sem grunaðir eru um glæpi í byrlunar- og símastuldsmálinu. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021 og síma hans stolið. Tilgangurinn var að komast í gögn Páls, sem er starfsmaður Samherja. Það gekk eftir. Efni úr síma skipstjórans birtist á sama klukkutímanum 21. maí 2021 í Stundinni og Kjarnanum, sem nú heita Heimildin. Sími skipstjórans var afritaður á RÚV. Allt bendir til að um þaulskipulagða aðgerð væri að ræða. Andlega veik þáverandi eiginkona skipstjórans sá um verkið fyrir blaðamennina.

Blaðamennirnir 5 sem eru sakborningar vita manna best hvað gerðist í apríl og maí fyrir bráðum fjórum árum. Þeir hafa ekki upplýst um vitneskju sína. Aðrir blaðamenn hafa látið það gott heita og þegja með sakborningum. Byrlunar- og símastuldsmálið er ekki-frétt að áliti íslenskra blaðamanna. En það er stórfrétt að fjölmiðlar byrli og steli til að ná í fréttaefni.

Blaðamennirnir urðu formlega sakborningar í febrúar 2022 þegar þeir voru boðaðir í yfirheyrslu hjá lögreglu. Hvað gerðu blaðamennirnir? Jú. þeir virkjuðu pólitískt bakland sitt til að koma í veg fyrir rannsókn á alvarlegum glæp. Vinstriflokkarnir voru ræstir út í þágu grunaðra. Hér er inngangurinn að tveggja ára gamalli frétt á Vísi:

Ungliðahreyfingar Pírata, Samfylkingar, Sósíalista, Viðreisnar og Vinstri grænna hafa boðað til mótmæla á Austurvelli á morgun. Fjölmennum á Austurvöll og sýnum samstöðu með frjálsum fjölmiðlum.

Að blaðamenn geri út af örkinni stjórnmálaflokka til að koma í veg fyrir lögreglurannsókn segir nokkra sögu um hvaða augum þeir líta á hlutverk sitt; að búa til pólitíska dagskrá fyrir vinstriflokka. En síðan hvenær er frjáls fjölmiðlun það sama og heimild til að fremja glæpi?

Blaðamennirnir fimm segjast enga glæpi hafa framið. Gott og vel. Hvers vegna útskýra þeir ekki hvernig þeir fengu gögnin úr síma Páls skipstjóra og hvernig farið var með gögnin? Málið væri þar með dautt. Öllum spurningum, sem snúa að blaðamönnum, svarað.

En fimmmenningarnir hafa engu svarað, ekki gefið neinar útskýringar á aðkomu sinni að málinu. Sú þögn gefur ekki til kynna sakleysi. Þvert á móti. Þeir sem þegja í sakamálarannsókn hafa eitthvað að fela. Játa ekkert í von um að sakamálarannsókn finni ekki nægar sannanir til sakfellingar.

Með skattsvikara sem formann og fimm þegjandi sakborninga er tómt mál að tala um trúverðugleika. Án tiltrúar er blaðamennska aðeins pólitískur aktívismi, löglaus í þokkabót. Vitundarherferðin sem kynnt var í gær auglýsir bágindi blaðamennskunnar.

Skildu eftir skilaboð