Í kulda og trekki í boði stjórnvalda

frettinInnlent, Jón MagnússonLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Það er óviðunandi að þúsundir Íslendinga skuli búa við þann veruleika, að hafa ekki nægan hita í híbýlum sínum og þurfa að spara rafmagn til að ekki komi til straumrofs. 

Þetta er samt veruleiki íbúa á Reykjanesi í dag.

Þurfti þetta að vera svona og þarf þetta að vera svona? 

Vanrækslusynd stjórnvalda

Sjaldan hefur legið fyrir jafnalvarleg vanrækslusynd stjórnvalda og í þessu máli, sem bitnar nú illilega á íbúum Suðurnesja. 

Í rúm þrjú ár hafa verið miklir landsskjálftar og eldgos á Reykjanesi í nágrenni við helsta orkuverið á svæðinu, þannig að þá strax var ljóst, að það þurfti að bregðast við og hafa neyðaráætlun ef slæm sviðsmynd yrði að veruleika. Það var ekki gert. 

Þar fyrir utan þurfti að ganga svo frá, að hægt væri að miðla nægri raforku til Suðurnesja ef ástandið yrði þanngi að það væri nauðsynlegt. Það var heldur ekki gert. 

Dekuráætlanir um „orkuskipti“

Stjórnvöld hafa enga afsökun fyrir því að hafa látið dekuráætlanir sínar um „orkuskipti“ ganga fyrir og vanrækja að tryggja næga orku í landinu og það á fjölbýlustu stöðum landsins þar sem veður voru öll válynd. 

Ekki verður séð annað en að iðnviðaráðherra sé sá embættismaður sem ber þyngstu sökina á þessari vanrækslu, Sigurður Ingi Jóhnannsson. Honum bar að bregðast við strax fyrir þrem árum, en gerði það ekki með þeim afleiðingum, sem Suðurnesjabúar finna nú heldur betur fyrir. 

Ef til vill má minna á að Sigurður Ingi lagði til eftir Hrunið, að fjölmargir fyrrverandi ráðherrar og embættismenn þ.á.m. Geir Haarde, Árni Mathiesen og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir o.fl. yrðu sótt til saka fyrir Landsdómi vegna vanrækslu sem hann taldi vera fólgna  í því að bregðast ekki við óljósum aðstæðum nokkrum mánuðum fyrr.

Hér er hins vegar um raungerða, hlutlæga vanrækslu iðnviðaráðherra að ræða og atriði sem hann hefði getað komið í veg fyrir ólíkt þeim ráðherrum, sem Sigurður Ingi vildi að yrðu ákærðir. 

Mun Sigurður Ingi axla ábyrgð á vanrækslusyndum?

Skyldi Sigurður Ingi nú mæla sjálfum sér með þeim mæli og axla ábyrgð á vanrækslusyndum sínum sem hafa valdið  orkuskorti og neyð fyrir íbúa Reykjaness á Reykjanesi og segja af sér? 

Í þessu sambandi má hugleiða orð Jesú í Mattheusarguðspjalli 7.kafla 1-2 vers:

"Dæmið ekki svo að þér verðið eigi dæmdir. Því að með þeim dómi sem þér dæmið, munuð þér dæmdir,:" 

Þó að Sigurður beri ekki einn ábyrgðina, þá er hann samt sá sem átti að hafa frumkvæði að því að bregðast við fyrir þremur árum. 

En nú ríður á að bregðast eins fljótt og vel við og unnt er til að firra meiri vanlíðan og tjóni Suðurnesjafólks.

Skildu eftir skilaboð