Páll Vilhjálmsson skrifar:
Nýorðinn forseti hitti Pútín starfsfélaga sinn Bill Clinton Bandaríkjaforseta um aldamótin. Clinton var á sínum síðasta spretti í embætti og þaulvanur en sá rússneski nýgræðingur. Pútín spurði Clinton í hádegisverði í Kreml hvort Rússland gæti orðið Nató-ríki.
Tja, jú, því ekki, sagði Clinton. Síðan leið dagurinn. Undir kvöldverði vék Clinton að málinu á ný og sagði, eftir að hafa ráðfært sig við sitt fólk, væri ekki raunhæft að Rússland yrði Nató-ríki.
Frásögnin hér að ofan hefst á 30. mín í viðtali Tucker Carlson við Pútín. Líklega fer Pútín rétt með. Clinton er enn lifandi og gæti leiðrétt Rússlandsforseta, sem yrði neyðarlegt fyrir Kremlarbónda.
Það eitt að forsetar Bandaríkjanna og Rússlands ræddu þann möguleika um aldamótin að Rússland yrði aðili að Nató sýnir að tíu árum eftir lok kalda stríðsins voru forsendur friðsamlegra samskipta andskota sem höfðu verið svarnir óvinir allar götur frá falli Þriðja ríkisins fyrir miðbik síðustu aldar. Um aldamótin var kommúnisminn kominn á ruslahaug sögunnar. Engin hugmyndafræðilegur valkostur var við vestrænt markaðshagkerfi. Til hvers óvinátta? Hvers vegna ekki samstarf?
Úkraínustríðið hófst 2022, Pútín myndi segir 2014, vegna áætlana um að Úkraína yrði Nató-ríki. Rússar telja óvinveitt hernaðarbandalag á þröskuldi sínum ógna öryggishagsmunum Rússlands. Frá Úkraínu er dagleið á skriðdreka til Moskvu.
Engin ein ástæða er fyrir glötuðu tækifæri til friðsamlegra samskipta Rússlands og vesturveldanna, Nató. Um aldamótin var ríkjandi sú hugsun að vestrið, sem sigraði kalda stríðið, ætti inn sín sigurlaun. Hugmyndin um vestrænt forræði í heimsmálum var útbreidd.
Vestrænir leiðtogar eru miður sín að Tucker Carlson taki viðtal við Pútín. Eiginkona Bill, sjálf forsetaframbjóðandi 2016 á móti Trump, Hillary Clinton, segir Carlson nytsaman fáráðling. Sterk orð þyrfti ekki að viðhafa ef Pútín væri í jaðarhlutverki heimsmálanna.
Pútín Rússlandsforseti er svo hættulegur andstæðingur að vestrið krefst þöggunar. Í annan stað gengur Rússagrýlan frá kalda stríðinu í endurnýjun lífdaga. Rússar eru sagðir áhugasamir að leggja undir sig Vestur-Evrópu. Jafnvel þótt vilji væri til í Kreml að sækja fram til Ermasunds eru ekki nokkrar einustu líkur á að hernaðarlegt bolmang sé fyrir hendi. Her Rússa á fullt í fangi að stríða við Úkraínuher.
Í Úkraínu er ekki í húfi framtíð hins frjálsa heims, líkt og af er látið. Aftur er í húfi ímyndin um vestrænan óskeikulleika. Stöðumat vestrænna leiðtoga eftir kalda stríðið var að heimurinn ætti þann eina kost apa eftir vestrænum gildum og háttum. Það mat reyndist rangt, sást þegar í Íraksstríðinu 2003. Tuttugu ára sneypuför til Afganistan, sem lauk í ágúst 2021, staðfesti að vestræn umbreyting á heiminum með vopnavaldi er ekki vinnandi vegur.
Betur að Rússland hefði orðið Nató-ríki um aldamótin. Pútín og félagar eiga það sem vestrinu sárlega skortir. Kallast raunsæi.