Gústaf Skúlason skrifar:
Alríkislögregla Brasilíu réðst inn á heimili Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseta Brasilíu og nokkra af fyrrverandi ráðherrum hans og ráðgjafa. Var gerð húsleit að sönnunargögnum fyrir meinta tilraun Bolsonaro til að hnekkja kosningaúrslitum 2022 með valdaráni. Bera má þessar aðgerðir við ofsóknir demókrata og glóbalista gegn Donald Trump í Bandaríkjunum.
Alls á alríkislögreglan í Brasilíu að hafa framkvæmt 33 húsleitanir og handtekið a.m.k. fjóra einstaklinga. Að sögn hafa 15 manns til viðbótar þurft að skila vegabréfum sínum og er bannað að yfirgefa landið. Jafnframt ríkir samskiptabann á milli einstaklinga sem verið er að rannsaka.
Bolsonaro var einn af þeim sem var gert að afhenda vegabréf sitt innan 24 klukkustunda að sögn talsmanns fv. forseta Brasilíu. Árás var einnig gerð á heimili fyrrverandi varnarmálaráðherra Brasilíu, fyrrverandi yfirmanns leyniþjónustunnar, fyrrverandi dómsmálaráðherra og fyrrverandi hershöfðingja sjóhersins auk varaforsetaframbjóðandans og flokksleiðtoga Bolsonaro.
Grunur um „tilraun til valdaráns“
Lögreglan sagði að árásirnar séu hluti af mörgum víðtækum rannsóknum á forsetanum fyrrverandi og samstarfsmönnum hans. Ásakanir núverandi valdhafa í Brasilíu eru, að Bolsonaro og fylgismenn hans hafi gert tilraunir til valdaráns, gert árásir á kosningakerfi Brasilíu, gagnrýnt Covid-19 bóluefni, falsað bólusetningarskrár og stolið skattfé.
Í kosningabaráttunni 2022 lýsti Bolsonaro efasemdum um öryggi kosningakerfisins í kjölfar yfirlýsinga yfirvalda um ábótavant tæknilegt öryggi. Þegar Bolsonaro tapaði kosningunum vildi hann að gerð yrði úttekt á öryggi kosningavélanna áður en hann viðurkenndi ósigur fyrir keppinaut sínum Luiz Inácio Lula da Silva. Stuðningsmenn Bolsonaros efndu til víðtækra mótmæla sem náðu hámarki í mótmælum við þingið, hæstarétt og forsetahöllina.
Bannað að gefa kost á sér í kosningum til 2030
Stjórnarandstöðunni hefur þegar tekist að setja Bolsonaro í framboðsbann í kosningum fram til ársins 2030, vegna þess að hann hafi „grafið undan trausti á kosningakerfi Brasilíu.“ Þetta er það sama og Joe Biden er að reyna að gera gagnvart Donald Trump í Bandaríkjunum. En aðgerðir lögreglunnar á fimmtudag benda til þess að vinstri öfgastjórn glæpamannsins da Silva vilji endanlega fjarlægja Bolsonaro. Segja þeir að Bolsonaro hafi sett gert tilraun til að halda völdum þrátt fyrir kosningatapið sem er alrangt miðað við yfirlýsingar og stefnu Bolsonaros á meðan hann var forseti.
Fórnarlamb pólitískra ofsókna
Bolsonaro segir sjálfur um húsleit lögreglunnar, að hann sé saklaust fórnarlamb stjórnmálaofsókna. Hann segir í yfirlýsingu til fjölmiðla:
„Ég fór frá völdum fyrir meira en ári síðan og enn sæti ég stöðugum ofsóknum. Nær væri að rannsóknaraðilar beindu athyglinni frekar að þeim forseta sem núna stjórnar landinu.“
Margir sjá líkindi á milli atburðanna í Brasilíu og þess sem er að gerast í Bandaríkjunum. Þar gera demókratar allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir, að Donald Trump bjóði sig fram og verði endurkjörinn forseti Bandaríkjanna eins og allt bendir til.