Jón Magnússon skrifar:
Utanríkisráðherra sagði í gærkvöldi að hann ætlaði bregðast við kröfum ofbeldisaðilanna á Austurvelli. Kom á óvart miðað við fyrri ummæli og fordæmi. Ekki er þetta til að auka á trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki.
Skrýtið að engin skuli spyrja, hvers vegna Egyptaland skuli nánast ekki gera neitt meðan stríð varnarsveita Ísrael við hryðjuverkasamtök Hamas geisar og bjóða íbúum Gasa að koma tímabundið meðan átökin geysa. Slíkt mundi draga verulega úr mannfalli óbreyttra borgara.
Þetta dettur Egyptum ekki í hug þó þeir eigi landamæri að Gasa og Gasa hafi áður verið hluti af Egyptalandi. Af hverju hamast framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kommúnistinn Guteres, ekki að Egyptum, Írönum og Saudi Aröbum og krefst þess að þeir sinni mannúð og taki við flóttamönnum frá Gasa meðan stríðið geisar. Af hverju hefur Evrópusambandið ekkert um þetta mál að segja?
Í flóttamannasamþykkt SÞ er gert ráð fyrir að flóttamenn séu sem næst heimaslóð þannig að þeir geti auðveldlega flutt til baka þegar styrjöld lýkur. Ursula von der Leyen sem hefur meira að segja skoðun á því hvort blaðamaður má tala við Putin eða ekki hefur enga skoðun á þessu og engin á vegum ES gerir kröfu um að nágrannaríki Gasa hjálpi. Flóaríkin taka ekki við öðrum frá Gasa en æðstu stjórendum þar sem þeir lifa í vellystingum á bestu lúxushótelum og eyða mannúðaraðstoð Vesturlanda sem fólkinu á Gasa var ætlað.
Bjarni Benediktsson hefði átt að benda á þessi sjónarmið og gera kröfu um að nágrannaríki Gasa tækju til hendinni og lofað stuðningi til þess í stað þess að setja það vafasama fordæmi að flytja hátt í 200 manns frá Gasa til Íslands, þegar hægt hefði verið að hjálpa a.m.k. 20.000 manns á heimaslóð fyrir það sem það kostar og gera það sem Egyptum, Saudi Aröbum og Írönum ber að gera langt umfram okkur.
Af hverju dettur engum í hug að einhver mannúðarskylda hvíli á Arabaríkjunum og Íran, en hún sé öll hjá ríkjum Evrópu og þó sérstaklega fámenna Íslandi og íslensk stjórnvöld skuli láta þessa vitleysu yfir sig ganga?