Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Það tók fjóra mánuði að fá fulltrúa Sameinuðu þjóðanna til að koma til Ísraels og rannsaka kynferðisofbeldi gegn konum þar í innrásinni 7. október en nú hefur Pramila Patten, sérstakur sendifulltrúi þeirra er rannsakar kynferðisofbeldi í stríði mætt á svæðið og hyggst skila skýrslu í þessum mánuði. Framan af var afneitunin algjör - Palestínumenn nauðguðu ekki konum! En af hverju er það ekki möguleiki? Fyrirmynd þeirra, Múhammeð gerði það jú og hélt kynlífsþræla til viðbótar hinum mörgu konum sínum, sem hann eignaðist sumar sem herfang. Iðulega má sjá í blöðunum fréttir af hópnauðgunum múslima: nauðgaragengin í Bretlandi, í Svíþjóð og nú síðast á Sikiley þar sem 7 manna hópur ungra Egypta er höfðu komið einir til Ítalíu nauðguðu 13 ára stelpu og neyddu kærasta hennar til að horfa á. Varaforsætisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, ofbauð og kallar hann nú eftir efnageldingu nauðgara.
Ungar konur eru enn í haldi á Gasa
Enn eru ungar konur í haldi á Gasa en á stöku stað hafa menn krafist lausnar þeirra, svo sem í Tate Modern, Lundúnum, í lok janúar. Í Brasilíu var minnt á rán Naama Levy (19 ára) frá samyrkjubúinu Nahal Oz í Negev eyðimörkinni er leikkona var teymd bundin og blóðug eftir götu í Sao Paulo. Myndband af Naama er hún var dregin úr skottinu á jeppa í buxum, blóðstokknum í klofinu, og ýtt í aftursæti hans fékk strax mikla dreifingu á Telegram daginn sem henni var rænt. Haft er eftir leikkonunni, Alessandra Dayan, að ólíkt sér hafi Naama ekki getað farið heim í sturtu og haldið áfram sínu venjubundna lífi eftir það sem gerðist. Gjörningnum í Sao Paulo var ætlað að vekja athygli kvenréttindafrömuða, m.a. hjá UN Women og Me Too hreyfingunni.
Nauðganir sem vopn í stríði
Nauðganir eru gjarnan notaðar sem vopn í stríði en sakir þess að þeim fylgir svo mikil skömm lenda sögur fórnarlambanna gjarnan í glatkistunni. Árið 2019 gaf Leesa Gazi, breskt- bangladeskt leikskáld út heimildarmyndina Rising Silence til að varðveita sögur sumra þeirra bengölsku kvenna er her Pakistans nauðgaði í frelsisstríði Bangladesh 1971 en þær eru taldar hafa verið 200,000 til 400,000. Kynningu á myndinni má sjá hér.
Í apríl á síðasta ári birtist grein í Guardian "We lay like corpses. Then the raping began": 52 years on, Bangladesh's rape camp survivors speak out" þar sem sagt er frá þessum tíma. Þar segir að margir sagnfræðingar telji að nauðganirnar hafi verið skipulagðar. Tikka Khan hershöfðingi hafi gefið þau fyrirmæli að genabanki Pakistana skyldi útvíkkaður. Noor Jahan var aðeins 14 ára er hermenn rændu henni ásamt öðrum konum og færðu þær í herbragga þar sem hún dvaldi ásamt 20-30 konum mánuðum saman í myrkri. „Við sáum aðeins dagsljós þegar hurðin var opnuð og hermennirnir marseruðu inn. Þá hófust nauðganirnar".
Razia Begum er nú 78 ára. Hún fór að leita að manni sínum en hermennirnir náðu henni, bundu hana við tré og hópnauðguðu vikum saman. Hún segist ekki vilja hugsa um það sem gerðist en hún fái enn martraðir. Skátaforinginn Maleka Khan lýsir því í greininni hvernig hún fann allsnaktar konur í losti og ófærar um að tjá sig í neðanjarðarbyrgjum, sumar komnar langt á leið, en haft er eftir ástralska lækninum Geoffrey Davis að þeir hermenn sem voru handteknir hafi ekki séð neitt athugavert við hegðun sína, þeir hafi jú tekið þátt í stríði. Davis fannst það hneykslanlegt að liðsforingjarnir hefðu hlotið þjálfun í Sandhurst, Bretlandi - algjörlega óásættanlegt, sagði hann.
Nú eru enn margar ungar ísraelskar konur í haldi neðanjarðar á Gasa, auk annars fólks þar á meðal smábarna, herföng í stríði. Fæstir kalla eftir eftir lausn þeirra og samkvæmt því sem stóð í United with Israel í gær,11 febrúar, þá neitar Rauði krossinn að líta til með gíslunum og færa þeim lyf. Vill það ekki eða fær það ekki? Líklegt er að þær þurfi að þola svipaða meðferð og kynsystur þeirra í Bangladesh 1971. Hvar er siðgæðisvitund okkar? Er nú leyfilegt að halda fólki föngnu mánuðum saman, og ungu konunum trúlega í kynlífsánauð?