Geir Ágústsson skrifar:
Það blasir við að stefna íslenskra stjórnvalda í svokölluðum útlendingamálum er glapræði. Klókir stjórnmálamenn hafa hér tækifæri til að lokka til sín kjósendur með því að benda á það. Kjósendur eru að bíða eftir raunsæi hérna.
Núna hefur formaður Samfylkingarinnar stigið fram og boðar aðgerðir. Það er góð stefnubreyting. Ef ég tæki upp á því aftur að kjósa þá myndi ég að vísu aldrei kjósa Samfylkinguna en fyrir þá sem eru í sífellu að flakka á milli Pírata, Viðreisnar, Samfylkingar, Sósíalistaflokksins, Vinstri-grænna, Flokks fólksins og jafnvel Framsóknar er valið orðið nokkuð skýrt.
Að því gefnu auðvitað að í kjölfar orða komi aðgerðir: Lagafrumvörp og þess háttar.
Aðrir vinstriflokkar þurfa nú að velta því fyrir sér hvort þeir taki líka upp fána norrænnar jafnaðarmennsku eða þurrkist út. Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn þurfa líka að girða sig í brók ef þeir ætla ekki að líta út eins og linkindur í samanburði við formann Samfylkingarinnar. Best væri auðvitað að fá svolitla samkeppni í því hvernig á að sauma fyrir götin á íslenskum landamærum, ríkissjóði og tómum hirslum sveitarfélaganna.
Fyrir 20 árum sáu danskir jafnaðarmenn það sem sumir þeirra íslensku sjá í dag: Ekki er hægt að halda úti velferðarkerfi samhliða því að fólki er mokað inn í það. Þeir sem koma þurfa að standa á eigin fótum og verða greiðendur skatta en ekki neytendur. Þeir sem flytja inn í samfélagið þurfa að aðlagast því, en ekki öfugt. Þetta er norræn jafnaðarmennska og þótt ég sé enginn jafnaðarmaður þá fagna ég því samt ef hún nær til Íslands.