Opið bréf til Þórðar Snæs

frettinInnlent1 Comment

„Vissu þeir að þeir myndu fá per­sónu­leg sam­skipta­gögn mín í hend­ur og voru því í start­hol­un­um þegar sím­inn barst í Efsta­leiti og var af­ritaður?“

Páll Steingrímsson skrifar:

Í síðustu viku skrifaði sakborningurinn Þórður Snær tilfinningaþrunginn leiðara. Leiðarinn var um margt skiljanlegur miðað við stöðuna sem hann er í. Það er erfitt að hafa stöðu sakbornings og því sýni ég skilning. Bæði hefur Þórður Snær sett mig í þá stöðu og þá er fólk í kringum mig sem hefur haft þessa stöðu og það töluvert lengur en Þórður Snær. Því vænti ég þess að hann hafi samúð með þeim og öðrum sem munu fá þessa stöðu í framtíðinni. Annað væri skrítið. Þórður Snær tekur væntanlega undir með mér að sú staðreynd að einhver hljóti stöðu sakbornings er ekki ávísun á sekt. Grundvallarregla réttarríkisins, sem Ísland hefur löngum kennt sig við að fylgja, er að hver sá sem er sökum borinn skal teljast saklaus uns sekt er sönnuð. Annars erum við litlu skárri en þeir sem stunduðu nornaveiðar hér á öldum áður.

Ég veit það líka og skil Þórð Snæ að það er erfitt að mæta í fjölskylduboð og veislur og þurfa að útskýra stöðu sína. Ég hef þurft að gera það vegna skrifa Þórðar Snæs. Munurinn á okkur er hins vegar að ég hef aðeins Facebook vegginn minn og einstaka sinnum samþykkja fjölmiðlar að birta aðsendar greinar mínar en það hefur gengið frekar ílla eitthvað sem Þórður Snær hefur ekki þurft að kvarta yfir. Fyrsta viðtalið sem ég mætti í (eftir að hafa verið synjað tvisvar af Ríkisútvarpinu) var 12. júní 2023. Eða rúmu ári eftir að þessi hópur sakborninga var búin að einoka umræðuna og á þeim tíma hefur  Þórður Snær aftur á móti átt fast sæti í útvarpi allra landsmanna – og fær greitt fyrir það – ásamt því að hafa gott aðgengi að öðrum fjölmiðlum, auk síns eigin, og einu stykki Blaðamannafélagi Íslands. Það munar um minna. 

Þórður Snær hefur þvert á sakborningsstöðu sína talið sig fórnarlamb. Hann hefur margsinnis lýst því yfir að hann skilji ekki hvers vegna hann sé til rannsóknar og að hann hafi aldrei eitrað fyrir nokkrum manni eða stolið sína. Það er því ágætt að hafa nokkrar staðreyndir á hreinu. 

  • Enginn hefur ásakað hann um að eitra fyrir mér. Það er vissulega þannig að efnið kom ekki fram á því prófi sem notað var á spítalanum. Það kemur ekki fram nema prófað sé fyrir því. Það þýðir til dæmis lítið að láta mann blása í áfengismæli ef hann er grunaður um að hafa sprautað sig með heróíni. 
  • Enginn hefur ásakað hann um að stela símanum mínum. Það er vitað hver tók símann og hvar hann var afritaður. 
  • Hann er með stöðu sakbornings fyrir að hafa birt einkaefni opinberlega og grunur er um að ekki hafi verið þær refsileysisástæður fyrir hendi sem hann heldur fram. Lögreglan hefur verið skýr og skilmerkileg í skýrslutökum um það. 

Það sem Þórður Snær og/eða félagar hans hafa hins vegar aldrei nokkurn tímann svarað er eftirfarandi: Vissu þeir að þeir myndu fá persónuleg samskiptagögn mín í hendur og voru því í startholunum þegar síminn barst í Efstaleiti og var afritaður. Það er stóra spurningin sem enginn hefur spurt og enginn heldur svarað. 

Því verður nefnilega ekki neitað að brotthvarf Aðalsteinn Kjartanssonar af RÚV fyrir hádeigi 30 Apríl og byrjaði samdægurs á Stundinni 3 dögum áður en ég lenti inn á gjörgæslu í öndunarvél er nú frekar grumsamlegt svo ekki sé fastari að orði kveðið.

Eins og ég segi, ég skil að staða Þórðar Snæs er erfið. Enda birti ég yfirlýsingu á Facebook vegg mínum 17. febrúar 2022 og bað fólk um að gæta hófs í orðum í ykkar garð. Ég minnist þess ekki að þið hafið viðhaft slíkan boðskap vorið 2021. Ef ég man rétt var boðuð umræða á Alþingi til að fordæma mig og málþing á vegum Blaðamannafélags Íslands. Ásamt því að boðað var til mótmæla niður á Austurvelli áður en nokkur vissi um hvað málið snérist

Ég minnist þess líka þegar Þórður Snær fór í viðtal á Hringbraut og fór yfir hversu erfitt það var að fræða börnin sín um hvað það er að hafa stöðu sakbornings. Ég skil mætavel áhyggjur Þórðar Snæs af áhrifum umfjöllunar á börnin sín. Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa mætt sambærilegum skilningi þegar við ræddumst við í síma skömmu fyrir viðtalið mitt 12. júní 2023 um börnin mín. Og vegna viðbragðsleysis hans, þá ákvað ég að fara í viðtal. Starfsmaður Þórðar Snæs á Kjarnanum sáluga sat nefnilega fyrir einu barni mínu á skemmtistað og var það aðgangsharður að samferðarfólk dóttur minnar þurfti að beina viðkomandi í burtu. 

Sá aðstöðumunur er nefnilega að ég er „nobody“ út í bæ en titill Þórðar Snæs og verðlaunin sem eru að sliga hann ættu að veita honum sjálfkrafa traust og trúnað þjóðarinnar og út fyrir landsteinana. Því til viðbótar hefur Þórður Snær takmarkalaust aðgengi að öllum fjölmiðlum en eins og dæmin sanna er ég heppinn ef ég fæ eina grein birta. Einn eigandi fjölmiðils Þórðar Snæs lýsti stolt yfir því um árið að hún hiki ekki við að hjóla í manninn þegar rökin hennar þrutu. Hún klappar aftur á móti fyrir Þórði Snæ. Þó ég sé vissulega hærri í loftinu er Þórður Snær má spyrja, hver í raun Davíð og hver er Golíat? 

Það er nefnilega margt skrítið í kýrhausnum eins og sagt er. Þórður Snær hefur í gegnum tíðina lítið gefið fyrir hlið Samherja og annarra sem bornir hafa verið sökum. Viðhorfið hefur verið í þá átt að „hvað er að marka það sem sakborningur segir, hann er bara að þyrla upp ryki. Trúum brotaþolum.“ Viðkvæðið hefur – a.m.k. í þessu máli – snúist við. „Hlustum á sakborninga, það er ekki orð að marka brotaþola. Þeir geta bara sjálfum sér um kennt.“ Af hverju vill Þórður Snær ekki hlusta á Samherja, nú eða mig? En allir eiga að falla í stafi og gera orð hans að sínum eigin? Annað eins hefur stundum verið kallað samsæriskenning en það á varla við hér. Að minnsta kosti finnst mér það draga dálítið úr vægi orðanna slaufun, kæling, gaslýsing og hvað þetta heitir allt. Þórður Snær, hafandi upplifað nú hversu erfitt það er, með réttu eða röngu, að vera sakaður, hlýtur að gefa því betur gaum hvað aðrir í þeirri stöðu segja sér til varnar. Annars er nú lítið virði í öllum blekinu sem fór í leiðarann.

One Comment on “Opið bréf til Þórðar Snæs”

  1. Takk kærlega fyrir að birta þennan pistil Fréttin.is,ég vona að réttlætið nái fram að ganga í þessu ömurlega byrlunarmáli.Páll á hér í höggi við íslenska mainstreeam fjölmiðla sem svífst einskis og skattborgarar halda uppi,því miður.

Skildu eftir skilaboð