Sláturfélagi Vopnfirðinga hefur verið slitið. Þetta var samþykkt á hlutahafafundi í gær og þar með lokar síðasta starfandi sláturhúsið á Austurlandi. Rúv greinir frá.
Skúli Þórðarson, framkvæmdastjóri sláturfélags Vopnfirðinga, segir reksturinn hafa verið erfiðan undanfarin ár.
„Vaxtagreiðslur hjá okkur hafa hækkað um 20 milljónir á tveimur árum. Það er um það bil tapið á síðasta ári og ekkert útlit fyrir að það verði minna í ár.“
Hann segir þetta gera það að verkum að reksturinn sé einfaldlega ekki sjálfbær lengur.
Hefði viljað að sjá sláturhúsið starfa áfram
Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps, segir það vonbrigði að loka þurfi sláturhúsinu, með því tapist bæði útsvarstekjur og fylgi samfélagslegar breytingar. Þar hafa verið fjórir í vinnu allt árið um kring en um 45 í sláturtíð sem umreiknast í um 11 heilsársstörf.
„Það er náttúrulega alltaf skellur þegar fyrirtæki lokar á svona litlum stað og sérstaklega eitthvað sem hefur verið svona lengi.“
Vopnafjarðarhreppur á fjórðungshlut í Sláturfélaginu og oddvitinn hefði viljað sjá reksturinn halda áfram.
„Þá þurfti svo mikið fjármagn til þess að keyra þetta áfram en þá hefði þetta, ef allt hefði gengið upp, getað gengið. En meiri líkur á að þá hefði þetta bara farið í þrot eftir tvö til þrjú ár og það hefði verið margfalt verri staða.“
Slátrað hefur verið í Sláturhúsinu á Vopnafirði samfellt í 75 ár, saga slátrunar í bænum nær í heild aftur um rúmlega tvöhundruð ár - en nú lýkur þeirri sögu.
One Comment on “Síðasta starfandi sláturhúsinu á Austurlandi verður lokað”
Það stefnir allt í að drepa landbúnaðinn, því miður. Nefndin um fækkun sláturhúsa á sínum tíma var bara fyrsta skrefið og ef fyrsta skrefið er stígið vitlaust, tja… þá er ekki von á góðu framhaldi.