Rússagrýlan mætt í Keflavík

frettinGeir Ágústsson, Innlent, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Rússar eiga hraðfleygustu flugskeyti í heimi sem þeir þróuðu sem andsvar við uppbyggingu flugskeytaskotpalla NATO um gjörvalla Austur-Evrópu. Eða það er að minnsta kosti söguskýring Pútín. Sennilega erum við á Vesturlöndum með einhverja aðra.

Þessi flugskeyti geta ferðast heimsálfa á milli á mínútum. Mögulega hraðar en viðbragðstími margra varnarkerfa gegn flugskeytum.

Það eru til margar leiðir til að lokka slík flugskeyti til sín (ef menn vilja vera á slíkri vegferð). Danir eru hérna mögulega fremstir í flokki. Þeir buðu NATO upp á mjög veglegar aðstæður til að koma sér fyrir í Eystrasalti. Um daginn lofuðu þeir að gefa Úkraínu öll stórskotaskotfæri sín. Hvað er heppilegra skotmark en vopnlaus bandamaður andstæðingsins með stórar bækistöðvar hers á sínu landi? Ég bý innan við 3 km frá flugvellinum í Kaupmannahöfn. Mér finnst þetta ekkert sniðugt (og heldur ekki ef kílómetrarnir væru hundrað). En það má jú ekki gagnrýna svona málningarvinnu á skotskífum.

Á hverju degi birtast fréttir af því hvað Rússar gætu gert. Um leið er okkur sagt hvað rússneska ríkið standi höllum fæti. Pútín er allt í senn að skipuleggja allskyns árásir og um leið á banabeði og notar klóna til að koma fram fyrir sína hönd. Hann heldur tveggja tíma ræður og situr álíka löng viðtöl en er um leið við lélega andlega heilsu. Hann er með krabbamein um leið og hann yngir upp kærustuna.

Blaðamenn ættu kannski að finna sér eitthvað annað til að fjalla um úr því þeim gengur ekki betur en þetta.

Skildu eftir skilaboð