Geir Ágústsson skrifar:
Í gær varpaði bandaríska dagblaðið New York Times stórri sprengju: Síðan í valdaráninu í Úkraínu árið 2014 hefur bandaríska leyniþjónustan unnið með yfirvöldum í Úkraínu í þjálfun sérsveita og uppbyggingu á háþróaðri njósnastarfssemi beint gegn Rússlandi. Ég mæli með góðri umfjöllun Zerohedge um þessa grein.
Ég trúi því auðvitað ekki í augnablik að hérna sé um að ræða einhverja afhjúpun sem ekki er þóknanleg bandarískum yfirvöldum. Miklu frekar er líklegt að grein NY Times sé hálfgerð fréttatilkynning til Rússlands: Hey, við erum með okkar menn og tæki á svæðinu svo þið náið aldrei að vinna stríðið!
Engu að síður er athyglisvert að sjá hér vestrænt dagblað gert út af vestrænu ríki til að segja frá háleynilegum aðgerðum og uppbyggingu hernaðarlegra mannvirkja með hjálp vestrænnar leyniþjónustu - alveg eins og Pútín sagði frá en var þá kallað samsæriskenning. Það er verið að senda einhver skilaboð, mögulega að reyna hita aðeins upp í kolunum.
Inn í þetta skuggastríð Bandaríkjanna hafa svo Íslendingar látið plata sig. Íslensk yfirvöld vita væntanlega ekki hálfa söguna en senda samt peninga, vopn og hjálpargögn í hendurnar á nafnlausu fólki í fjarlægum útlöndum á meðan Íslendingar deyja í röðinni á sjúkrahúsið.
Það sannast enn og aftur að munurinn á samsæriskenningu og raunveruleikanum er, að jafnaði, 6-9 mánuðir.