Björn Bjarnason skrifar:
„Hverjum þeim aðila, er að fjársöfnun stendur, á einnig að vera það ljúft að sýna allt á hreinu...“
Lög um opinberar fjársafnanir eru frá 1977. Helgi F. Seljan, þingmaður Alþýðubandalagsins, flutti frumvarpið í október 1976 og varð það að lögum í mars 1977.
Tók Helgi fram að engin sérstök ástæða til tortryggni lægi að baki frumvarps síns. Hins vegar skorti nokkuð á um lagasetningu, sem ákvarðaði fyrirkomulag og uppgjör slíkra fjársafnana. Þá sagði í greinargerð frumvarpsins að almenningur sem veitti fé til söfnunar ætti siðferðilega heimtingu á því að vita niðurstöður söfnunar og ráðstöfun fjárins, og orðrétt: „Hverjum þeim aðila, er að fjársöfnun stendur, á einnig að vera það ljúft að sýna allt á hreinu, svo að enginn blettur geti fallið á aðstandendur eða markmið slíkrar söfnunar.“
Tekið var fram að fyrirmynd að frumvarpinu væri sótt til Danmerkur og undirstrikað að hér væri á engan hátt verið að bregða fæti fyrir „heilbrigðar fjársafnanir“.
Þetta er rifjað upp hér vegna fréttar í Morgunblaðinu 2. mars um að samtökin Solaris hafi hvorki sótt um leyfi fyrir opinberri fjársöfnun né tilkynnt um opinbera fjársöfnun til sýslumannsembættisins á Suðurlandi og þar með farið á svig við þessi lög.
Samtökin segjast hafa safnað tugum milljóna króna undanfarið til stuðnings verkefnum á Gaza þar sem Ísraelsher berst við Hamas-hryðjuverkamenn með hroðalegum afleiðingum fyrir almenna borgara á svæðinu. Hefur verið greint frá því að tugir milljóna hafi safnast í þeim tilgangi.
Eins og áður segir er frumvarp Helga F. Seljan frá 1976. Hafi þá þótt ástæða til að hafa það eftirlit sem í lögunum segir er það enn brýnna núna þegar Ísland hefur gerst aðili að alþjóðasamningum um peningaþvætti og sætir skipulegu eftirliti með framkvæmd og hollustu við þá samninga.
Fjársafnanir, hverju nafni sem nefnast, eru taldar með auðveldum aðferðum til að þvo illa fengið fé. Þess vegna er sérstaklega litið til þess hvernig ríki standa að skráningu slíkra safnana. Í t-lið 2 .gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka frá 2018 segir að undir þau falli „einstaklingar eða lögaðilar sem hafa hlotið starfsleyfi á grundvelli laga um happdrætti eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga“. Lögin um fjársafnanir eru sérlög sem taka til söfnunar Solaris. Að skjóta sér undan ákvæðum laganna með því að sækja ekki um skráningu verður alvarlegra en ella vegna þess hernaðar- og hryðjuverkaástands sem ríkir á Gaza.
Markmið laganna frá 2018 „er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi,“ eins og segir í 1. grein þeirra.
„Hverjum þeim aðila, er að fjársöfnun stendur, á einnig að vera það ljúft að sýna allt á hreinu,“ sagði Helgi F. Seljan í greinargerð sinni 1976, „svo að enginn blettur geti fallið á aðstandendur eða markmið slíkrar söfnunar.“ Þetta ætti Solaris að taka til sín núna og vinda bráðan bug að skráningu og lögbundinni upplýsingagjöf vegna söfnunar sinnar.
One Comment on “Óskráð söfnun Solaris”
Réttmæt ábending hjá Birni og væntalega kippa Solaris þessu í liðinn án tafa.
Geri ekki ráð fyrir að þeir sem lagt hafa í söfnunina kæri sig um að þeirra fé lendi sem sektargreiðslur í ríkissjóð.