Jón Magnússon skrifar:
Í gær samþykkti Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna að vopnahléi skyldi komið á í stríði Ísrael við hryðjuverkasamtök Hamas á Gasa. Vonandi gengur eftir að meðan vopnahléð stendur náist samningar um að Hamas láti af stjórn á Gasa þannig að hægt sé að semja um varanlegan frið svo þjáningum almennings á Gasa linni.
Utanríkisráðherra fagnaði vopnahléinu í færslu á fésbók, en var á sama tíma að undirrita samninga um að Ísland greiddi fyrir vopn fyrir Úkraínu til að drepa þar mann og annann. Það er frávik frá utanríkisstefnu Íslands frá því að við urðum frjálst og fullvalda ríki árið 1918. Mörgum þar á meðal þeim sem þetta ritar finnst miður að Ísland skuli blanda sér í vopnakaup fyrir stríðsaðila í stað þess að takmarka stuðning við hjálparstarfsemi og annað því tengt, svo sem verið hefur.
En á sama tíma og Vesturlönd fagna vopnahléi á Gasa, þá er ekkert þeirra að tala fyrir vopnahléi og friðarsamningum í kyrrstöðustyrjöldinni í Úkraínu. Þjáningar óbreyttra borgara, sem verða fyrir drónaárásum og flugskeytum er gríðarleg. Þrátt fyrir það fá þeir sem tala fyrir vopnahléi eða friði í því stríði bágt fyrir meira að segja páfinn og utanríkisráðherra Íslands finnst í lagi að tala fyrir vopnahléi á Gasa á sama tíma og hann kaupir vopn fyrir Úkraínuher.
Hvernig skyldi standa á því að heimurinn fagnar vopnahléi á Gasa en telur það ekki eiga við í Úkraínu?