Stöðva þurfti tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni í gær vegna hjartastopps og yfirliðs

frettinErlent

Stöðva þurfti tímabundið tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni í gær. Annars vegar leik Watford og Chelsea þar sem áhorfandi fór í hjartastopp og hins vegar leik Southampton og Leicester þar sem áhorfandi hneig niður í hálfleik en ekki var um hjartastopp að ræða. Sá var einnig fluttur á spítala.

Leikur Watford og Chelsea hófst klukkan 19:30 en aðeins þrettán mínútum síðar var leikurinn stöðvaður. Leikmenn gengu til búningsherbergja meðan beðið var eftir frekari fregnum.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem áhorfandi fær hjartaáfall á leik í ensku úrvalsdeildinni en það sama gerðist einnig í leik Tottenham og Newcastle í október.