Fyrirtækið Meta, eigandi Facebook og Instagram, ætlar að leyfa notendum í sumum löndum að kalla eftir ofbeldi gegn Rússum og rússneskum hermönnum í tengslum við innrásina í Úkraínu, samkvæmt tölvupósti sem Reuters fékk á fimmtudaginn. Þetta er tímabundin breyting á reglum þeirra um hatursorðræðu á miðlunum.
Reglur þeirra segja: „Við fjarlægjum efni sem gæti stuðlað að hættu á skaða á líkamlegu öryggi fólks.“
Meta mun einnig tímabundið leyfa færslur notenda sem kalla eftir dauða Pútín Rússlandsforseta eða Alexander Lukashenko forseta Hvíta-Rússlands, í sumum löndum þar á meðal Rússlandi, Úkraínu og Póllandi, samkvæmt tölvupóstum frá stjórnendum fyrirtækisins.
Ákall um dauða leiðtoganna tveggja verður leyft nema færslurnar innihaldi frekar lýsingar svo sem staðsetningu eða morðaðferð, segir í einum tölvupósti, þar sem fjallað eru um þessar nýlegu breytingar á reglum fyrirtækisins um ofbeldi og hvatningu á ofbeldi.
Í tölvupóstunum segir að ákall um ofbeldi gegn Rússum væri leyfilegt þegar ummæli notenda tengdust innrásinni í Úkraínu.
Stefnubreytingarnar gilda um Lettland, Litháen, Eistland, Pólland, Slóvakíu, Ungverjaland, Rúmeníu, Rússland og Úkraínu.
Í síðustu viku sögðust Rússar ætla banna Facebook í landinu til að bregðast við takmörkunum á aðgangi rússneskra fjölmiðla á miðlinum. Moskva hefur tekið hart á tæknifyrirtækjum, þar á meðal Twitter sem sagðist ætla takmarka aðgang í landinu meðan á innrásinni í Úkraínu stæði.