Væntanleg er skýrsla um hvernig kanadíski herinn velur þær erlendu hersveitir sem hann tekur að sér að þjálfa. Vinna við skýrsluna mun hafa hafist seint í október á síðasta ári. Ástæða endurskoðunarinnar er að hópar gyðinga hafa vakið athygli á að kanadískir hermenn séu sagðir hafa þjálfað ný-nazista í Úkraínu og að sumir Írakar sem þeir hafi þjálfað hafi sýnt þeim myndbönd af stríðsglæpum sínum, s.s. af aftökum fanga og því er konu var nauðgað til dauða. Einnig kom það fram í skýrslu frá George Washington háskóla í Bandaríkjunum í september að hópur úkraínskra hermanna með tengsl við ný-nazískar sveitir, svo sem Azov, stærðu sig af því að hafa fengið þjálfun hjá Kanadabúum og öðrum innan NATÓ.
Kjarni málsins virðist vera að kanadíski herinn metur ekki þá hópa er hann þjálfar, heldur lætur heimamönnum á hverjum stað það eftir. Í grein Ottawa Citizen frá því nóvember á síðasta ári segir að kanadíski herinn hafi verið varaður við hættunni af hægri öfgahópum innan úkraínska hersins 2015, áður en herþjálfun Úkraínumanna hófst, en að æðsta stjórn hersins hafi að mestu hunsað þær áhyggjuraddir.
Hópur gyðinga í Úkraínu hefur einnig vakið athygli á vídeói af úkraínskum fallhlífarhermönnum að syngja Stepan Bandera til heiðurs. Bandera var samverkamaður nazista og er ásamt samverkamönnum sínum talinn bera ábyrgð á dauða meira en 100.000 gyðinga, Pólverja og fleiri hópa í seinni heimsstyrjöldinni, þar á meðal fjöldamorðunum1941 í Babi Yar, Kief, þar sem 33.000 gyðingar voru skotnir og grafnir í fjöldagröf.
Sama nazistavandamálið er víðar fyrir hendi. Í september 2019, segir í greininni, hafi utanríkisráðherra Lettlands hrósað þeim meðlimum SS sveita Lettlands sem börðust með nazistum og sagt þá "stolt þjóðar og ríkis" og "enginn fengi að tala á móti því." Efraim Zuroff hjá Simon Wiesenthal stofnuninni taldi það hreint óþarft að mæra þá er tóku virkan þátt í drápum á gyðingum í Riga og furðulegt að slíkt kæmi frá embættismanni lands sem væri í ESB og NATO.
Hetja eins hóps er oft skrímsli annars. Þannig hefur t.d. BLM málað myndir af, og gengið í bolum merktum Assötu Shakur sem var meðlimur Svartra frelsishersins og slapp til Kúbu eftir að hafa verið dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt ungan þjóðvarðliða og Palestínumenn nefna skóla eftir Dalal Mughrabi sem drap bandarískan ljósmyndara og tók þátt í að ræna rútu í Ísrael 1978 með þeir afleiðingum að 37 almennir borgarar létust, þar af 12 börn, og Dalal og félagar að auki.
Stóra spurningin er samt af hverju yfirstjórn kanadíska hersins virðist til í að þjálfa hvaða hópa sem er.