Alræmd fartölva Hunter Biden viðurkennd af The New York Times

frettinErlent, Erna Ýr ÖldudóttirLeave a Comment

Eftir Ernu Ýr Öldudóttur:

The New York Times hefur nú loksins viðurkennt tilvist alræmdrar fartölvu Hunter Biden, sonar Josephs R. Biden Bandaríkjaforseta, sem New York Post greindi fyrst frá fáeinum vikum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember árið 2020.

Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun blaðsins um stöðu rannsóknar bandaríska alríkisins á alþjóðlegum viðskiptum Hunter Biden, meðal annars í Úkraínu, miðvikudaginn 16. mars síðastliðinn. Í umfjöllunin blaðsins, sem þrír blaðamenn þess undirrita, kom fram að það hefði undir höndum gögn úr tölvunni:

„Fólk sem þekkir til rannsóknarinnar segir saksóknara hafa rannsakað tölvupósta á milli [Hunter] Biden, [Devon] Archer og annarra um Burisma [úkraínskt orkufyrirtæki] og önnur viðskipti þeirra erlendis. The New York Times hefur áskotnast þessir tölvupóstar úr skráarminni sem virðist vera úr fartölvu sem [Hunter] Biden sótti ekki úr viðgerð, á verkstæði í Delaware. Þessir tölvupóstar og fleira á skráarminninu voru sannreyndir af aðilum sem þekktu til þeirra í tengslum við alríkisrannsóknina.“

Allir lögðust á eitt við að róta yfir málið fyrir kosningar

Ýmsir muna ef til vill eftir að í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í október 2020, birti bandaríska dagblaðið New York Post frétt um fartölvuna og innihald hennar, en þar var m.a. að finna suma þá tölvupósta þá sem bandaríska alríkið hefur nú til rannsóknar. Einnig birti blaðið fáeinar myndir af sukklíferni sonar forsetans. Blaðið fullyrti um tilvist fleiri mynda sem sýna Hunter við eiturlyfjaneyslu og í mjög vafasömum kynlífsathöfnum, en eitthvað af því efni virðist hafa komist í dreifingu á netinu eftir að málið komst í hámæli.

Samskiptamiðlarnir Twitter og Facebook lokuðu umsvifalaust á New York Post vegna birtingar á fréttinni. Flestir meginstraumsfjölmiðlarnir vestra kepptust við að gera hana ótrúverðuga og beittu m.a. til þess ritskoðunarherdeildum svokallaðra „fact-checkers“. Fimmtíu og einn fyrrum leyniþjónustumaður var dreginn á flot til að gefa út yfirlýsingu um að málið væri uppspuni.

The New York Times birti umsvifalaust fordæmingu Demókrata á fréttinni þar sem hún var kölluð „rússnesk upplýsingaóreiða“, án þess að styðja þær fullyrðingar frekar. Síðast í september 2021 hélt blaðið því fram að upplýsingar um fartölvuna og innihald hennar væru „órökstuddar“.

Joe Biden þrætti og sneri út úr þegar hann fékk spurningar um málið fáeinum dögum fyrir kosningarnar og kallaði það m.a. „áburð“ (e. smear) úr herbúðum andstæðings hans Donald Trump, og hélt áfram með að gefa í skyn að Rússland ætti þar hlut að máli. Hann ítrekaði jafnframt að sonur hans vær heiðvirður maður og að viðskipti þeirra feðga í Úkraínu hefðu verið án athugasemda.

Málið alvarlegt fyrir trúverðugleika fjölmiðla, tæknifyrirtækja og aðila í stjórnkerfinu

Með þessu virðist New York Post hafa fengið uppreist æru, en á móti má vera ljóst að The New York Times auk fleiri fjölmiðla, samfélagsmiðla, aðila úr stjórnkerfinu og aðra sem vilja láta taka sig alvarlega hafa tapað trúverðugleika. Svo virðist sem þessir aðilar hafi tekið sig saman um að hylma yfir upplýsingar sem sannanlega varða almenning fyrir kosningar, til að vernda forsetaframboð Joe Biden, alveg þar til löngu eftir að þær eru um garð gengnar. Flestum ætti að vera ljóst að mótframbjóðanda hans, Donald J. Trump, hefði ekki verið hlíft, hefði tölvan verið í eigu sonar hans.

Nú er svo komið að málið gæti orðið þeim Biden feðgum að falli. Til viðbótar eru raddir að verða háværar á bandaríska þinginu, sem óska eftir rannsókn á hlutdeild tæknirisanna og fleiri aðila vegna yfirhylmingar á því. Einnig má verða ljóst að notkun á orðinu „rússnesk upplýsingaóreiða“ mun ef til vill ekki hafa sömu áhrif lengur, við að reyna að draga úr sannleiksgildi frétta.

Skildu eftir skilaboð