Nýr vefmiðill, Hinvegin, fór í loftið í Færeyjum 7. mars sl. Hinvegin varð til þar sem þörf var á að hafa bæði fjölmennari og víðtækari umfjöllun um málefni líðandi stundar á færeyskri tungu. „Þetta kom glögglega í ljós í Covid-faraldrinum, þegar aðeins eitt sjónarmið og einn söguþráður var kynntur í færeyskum fjölmiðlum,“ segir Jón Tyril stofnandi miðilsins.
„Hinvegin mun þó ekki einbeita sér eingöngu að málum varðandi Covid, heldur margvíslegu efni þar sem reynt verður að koma með viðbótarsjónarmið og auka fjölbreytni í umræðunni,“ segir Jón.
Á færeysku þýðir orðið „hinvegin“ „hin leiðin.“ Það er notað til að gefa leiðbeiningar eins og: „Fór hann þá leið? Nei, hann fór hinvegin (hina leiðina),“ en líka í umræðu varðandi annað sjónarhorn, eins og: „Þú getur litið á það þannig, en einnig „hinvegin,“ frá öðru sjónarhorni.
Stofnandi og ritstjóri Hinvegin er Jón Tyril. Jón er þekktastur fyrir störf sín í tónlistarlífinu, hann var stofnandi G! hátíðarinnar og HOYMA tónlistarhátíðarinnar í Gøta á Austurey. Hann er einnig stofnandi hljómsveitarinnar Clickhaze með Eivør Pálsdóttur. Hljómsveitin hélt meðal annars tónleika í Austurbæjarbíó í Reykjavík árið 2002.
Jón er með BS gráðu frá Fróðskaparsetur Føroya í færeyskri tungu og bókmenntum og hefur eytt stórum hluta ævinnar í að vinna beint eða óbeint í samskiptum og ráðgjöf. Hinvegin er styrkt af einkaaðilum sem styðja málstað síðunnar.
Þess má geta að blaðamenn Fréttarinnar heimsóttu Færeyjar í febrúar sl. og hittu þar á meðal Jón Tyril sem sagði þeim frá því hvernig Færeyingar höfðu tekist á við faraldurinn. Jón vildi meina að flestir Færeyingar hefðu farið sáttir í gegnum ástandið þar sem ríkisstjórn þeirra fór þá leið að setja ekki farsóttarlög í landinu heldur voru aðeins gefnar út ráðleggingar.
Á meðan á dvölinni stóð tók Fréttin viðtal við þá Kaj Leo Johannesen heilbrigðisráðherra og Jenis Kristjan Av Rana lækni og ráðherra þriggja ráðuneyta. Jenis kynnti Jón Tyril fyrir blaðamönnum Fréttarinnar sem einnig hefur reynt að koma með „hinvegin“ í umræðunni um Covid faraldurinn á Íslandi.
Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur tók í framhaldi af heimsókn Fréttarinnar til Færeyja, viðtal við Jón Tyril um faraldurinn í Færeyjum og birti grein um efnið á bresku miðlunum Daily Sceptic og Brownstone.
Hér má lesa Hinvegin.