Ný alda hryðjuverka hafin í Ísrael?

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Á rúmri viku hafa Ísraelsmenn upplifað þrjár hryðjuverkaárásir. Ísraelskur arabi stóð fyir þeirri fyrstu. Hann hafði dreymt um að ganga til liðs við ISIS í Sýrlandi en lent í fangelsi í staðinn. Hann ók bíl sínum á hjólreiðamann og varð honum að bana og síðan drap hann þrjá með hnífi fyrir utan verslunarmiðstöð í Beersheba. Tveim dögum síðar hófu aðrir tveir ísraelskir arabar skothríð á stoppistöð í Hadera og drápu tvo 19 ára lögregluþjóna. ISIS lýsti árásinni á hendur sér. Sú þriðja var framin þann 29 mars í Tel Aviv í hverfinu Bnei Brak þar sem margir orþódox gyðingar búa. Upptökur sýna svartklæddan árásarmann skjóta úr M16 riffli í íbúahverfi. Fyrst skaut hann tvo Úkraínumenn til bana er þeir sátu fyrir framan matvöruverslun. Næst kom röðin að ökumanni er átti leið framhjá og þeim fjórða áður en tvo lögreglumenn bar að. Annar þeirra féll en hinn skaut árásarmanninn til bana. Bráðaliði einn slapp því riffillinn stóð á sér. Sá sem stóð fyrir þessu fjöldadrápi var Palestínumaður af Vesturbakkanum sem hafði áður unnið í hverfinu. Á stuttum tíma hafa því 11 verið drepnir í hryðjuverkaárásum í Ísrael og 3 árásarmenn einnig.

Bennett, forsætisráðherra Ísraels, gaf út yfirlýsingu að kvöldi árásarinnar og sagði að á nokkurra ára fresti þyrfti Ísraelsríki að fást við öldu hryðjuverka. Viðbúnaðarstig hafði þegar verið hækkað eftir fyrri árásirnar tvær, en dugði greinilega ekki til. Abbas forseti Palestínu fordæmdi árásina í Tel Aviv en Hamas fagnaði og sumir Palestínumenn fögnuðu með því að dreifa sælgæti til vegfarenda.

Ábyrgð Evrópusambandsins

Evrópusambandið er helsti stuðningsaðili Palestínumanna, en nú loksins er að renna upp fyrir því að kannski sé óskilyrtur stuðningur við þá ekki heppilegur. Á síðasta ári var skýrsla þess um kennslubækur palestínskra barna tekin fyrir í Brussel. Henrike Trautmann, sem er yfir þeirri deild sem sér um stuðning til menntamála í Palestínu sagði: „Það er dagljóst að rannsóknin hefur leitt í ljós að innihaldið er verulega vafasamt ... breyta þarf námsefninu ... tryggja þarf að allt námsefni sé í samræmi við staðla UNESCO um frið, umburðarlyndi og líf í sátt og samlyndi án ofbeldis og einnig verður að fjarlægja allt sem hvetur til haturs á gyðingum.“

Nicola Beer, varaforseti þingsins, tengdi greinilega fjárhagsstuðning Evrópu við hatursinnrætingu: „Það veldur okkur þjáningu að lesa um innihald námsbóka sem aðeins eru til sakir menntakerfis sem ESB, ásamt öðrum stuðningsaðilum, gera palestínsku heimastjórninni kleift að hafa. Að lýsa gyðingum sem hættulegum, útmála þá sem djöfullega og viðhalda fordómum gegn þeim kemur okkur aðeins í uppnám. En að lesa um að námsbækur - og hér tala ég sem móðir - hefji hryðjuverkakonuna Dalal al-Mughrabi til skýjanna sem baráttukonu gegn hernáminu þegar framlag hennar var dráp á almennum borgurum með köldu blóði, þar á meðal mörgum börnum, það gerir mig orðlausa.“

Bennett býst greinilega við fleiri hryðjuverkum á næstunni enda hefst Ramadan brátt og ef margir borgarar Ísraels eru hliðhollir ISIS er hreint ekki von á góðu.

BBC.


Skildu eftir skilaboð