Lítil spurn virðist vera eftir fjórðu Covid sprautunni meðal eldri borgara ef marka má tölur á Covid.is.
Þeim sem eru 80 ára og eldri bauðst fjórði skammturinn frá og með 26. apríl, auk allra annarra sem dvelja á hjúkrunarheimilum.
Aðeins 21% í aldurshópnum 80 - 89 ára og eldri hafa fengið fjórða skammtinn og 14% meðal 90 ára og eldri. Þá hafa 3% í hópnum 70 - 79 ára fengið fjórar sprautur og 1% í 60 - 69 ára hópnum.
Athygli vekur að á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að til að geta fengið fjórða skammtinn þurfa að lágmarki fjórir mánuðir að hafa liðið frá þriðja skammti en ekki skiptir máli hvort viðkomandi hafi smitast af Covid-19 eða hvenær.
Í tilkynningu Heilsugæslunnar er hlekkur á tilkynningu frá landlæknisembættinu um málið þar sem hvergi er nefnt að engu skipti hvort eða hvenær viðkomandi hafi fengið Covid-19.
Aftur á móti er tilkynnig á vef landlæknis frá því síðasta sumar þar sem segir: „ef innan við 3 mánuðir eru frá staðfestri COVID sýkingu er mælt með að bíða með bólusetninguna þar til að þeim tíma liðnum.“
Það sama kemur fram hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands vegna bólusetninga barna, mælt er með að beðið sé í þrjá mánuði eftir sýkingu.
Hér birtir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins því sínar eigin reglur og það gegn ráðleggingum sóttvarnalæknis.
Á þessum tíma, undir lok apríl, þegar fjórði skammturinn bauðst hafði stór hluti þjóðarinnar þegar smitast og hópsmit voru víða á hjúkrunarheimilum, meðal annars á Grund, Eir, Sunnuhlíð, Hraunbúðum í Vestmanneyjum, þrátt fyrir þriðja skammtinn af bóluefninu.
Reikna má því með að dágott ónæmi hafi myndast meðal eldri borgara, utan sem innan hjúkrunarheimila, og náttúruleg sýking veitir betri og varanlegri vörn, auk þess sem það getur verið varasamt að bólusetja ofan í nýlegar sýkingar.
Og eftir stendur spurningin, hvaða heimild hefur Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins til að búa til sínar eigin bólusetningareglur og hvers vegna er yfir höfuð verið að bólusetja fólk gegn sjúkdómi sem það hefur þegar fengið?