Fúkyrði, sjálfsálit og sannfæring

frettinPistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og kennari skrifar:

Þjóðmálaumræðan einkennist af æsingi, upphrópunum og fúkyrða­flaumi, skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir í Fréttablaðið.

Peter Hitchens, sem einu sinni var vinstrimaður, segir ástæðuna fyrir heift vinstrimanna þá að þeir séu sannfærðir um eigið ágæti annars vegar og hins vegar réttmæti málstaðarins.

Vinstristefna, hvort heldur kratismi eða sósíalismi, taldi sig kunna uppskriftina að framtíðinni. Þaðan kemur sannfæringin, að vita hvernig heimurinn á að vera. Ef uppskriftinni verður ekki fylgt, segja vinstrimenn, blasir við heimsendir. Ragnarök kapítalismans hét það fyrrum. Þegar sá heimsendir lét bíða á eftir sér fundu vinstrimenn nýja ógn, manngert veðurfar.

Vinstrimenn eru löngum flinkir í orðræðunni. Þeir setja saman tákn og texta með boðskapnum. Lítið dæmi er nýtt meint listaverk í fjörukantinum vestur í bæ, skammt frá JL-húsinu. í texta með verkinu er fjasað um súrnun sjávar. Dómsdagur er í nánd. Grétufræði gerð listræn. Á kostnað skattborgaranna, auðvitað.

Vinstrimenn eru gjarnan sérfræðingar á sviðum þar sem þekking er af skornum skammt. Þróun efnahagskerfa þóttust þeir sjá fyrir á 19. öld og á 21. öld hvernig veðrið verður eftir 50 ár. Samt þora ekki einu sinni veðurfræðingar að spá veðri nema nokkra daga fram í tímann. Litla þekkingu bæta vinstrimenn upp með sjálfsáliti og sannfæringu. Sé þeim andmælt er stutt í fúkyrðaflauminn.

Eins og dæmin sýna.

Skildu eftir skilaboð