Hagsmunasamtök Heimilanna hafa sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:
Í síðustu viku tilkynnti Þjóðskrá nýtt fasteignamat sem mun hækka um tugi prósenta á einu bretti um næstu áramót. Sé litið til ástandsins á fasteignamarkaði og gríðarlegra verðhækkana á húsnæði kom þetta ekki sérstaklega á óvart og eðlilegt er að fasteignamat endurspegli raunverð á markaði.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð.
Það er staðreynd að hærra fasteignamat hækkar ekki ráðstöfunarfé heimila eða fyrirtækja. Jákvæð áhrif eru í raun engin, nema kannski "á pappírum" en neikvæðu áhrifin eru hins vegar þó nokkur og munu m.a. birtast í auknum útgjöldum vegna gjalda sem miðast við fasteignamat.
Þar má fyrst nefna fasteignagjöld sem munu hækka um tugi þúsunda af meðalíbúð vegna þessarar hækkunar á fasteignamati. Á sama tíma og það gerist horfast bæði heimili og fyrirtæki í augu við gríðarlegar hækkanir á afborgunum lána auk þess sem allar nauðsynjavörur hafa hækkað mikið.
Einnig má nefna að hækkun fasteignamats hefur samsvarandi áhrif til hækkunar stimpilgjalda sem er ósanngjörn skattlagning á húsnæðiskaup. Jafnframt er hætt við að margir sem þurfa að reiða sig á vaxtabætur munu missa þær við að mælast yfir eignaskerðingarmörkum eftir hækkun fasteignamats, þrátt fyrir að raunveruleg fjárhagsstaða þeirra og útgjaldaþol hafi ekkert breyst.
Að auki má gera ráð fyrir að hækkun fasteignamats muni hafa áhrif til hækkunar á leigu sem þegar hefur hækkað um tugi þúsunda. Það sér ekki enn fyrir endann á þeim hækkunum og fyrirsjáanlegar hækkanir vegna fasteignamats munu enn bæta gráu ofan á kolsvartan veruleika leigjenda.
Sveitarstjórnir og stjórnvöld verða að taka ábyrgð á þessu ástandi á húsnæðismarkaði. Hækkanir stafa fyrst og fremst af skorti á húsnæði og í því sambandi má geta þess að strax árið 2010 vöruðu Hagsmunasamtök heimilanna við því að dregið væri úr framkvæmdum og uppbyggingu húsnæðis. Samtökin töluðu fyrir daufum eyrum og neytendur, heimili og fyrirtæki, súpa seyðið af því í dag.
Hvorki heimili né fyrirtæki eru ótæmandi uppsprettur fjármagns og staðreyndin er að mörg þeirra eru þegar farin að skrapa botninn á brunninum og hafa ekki meira aflögu.
Hagsmunasamtök heimilanna fagna nýlegum yfirlýsingum nokkurra sveitarfélaga um að þau muni lækka álagningarhlutföll sín til að milda áhrif þessarar hækkunar. Við eigum samt sem áður eftir að sjá hvernig það fer og ljóst er að sveitarfélögin þurfa að lækka álagningarhlutföll sín umtalsvert svo að hækkun fasteignamats bitni ekki illilega á heimilum og fyrirtækjum.
Grundvallaratriðið er það að skattar eiga aldrei að hækka sjálfkrafa eins og skattar á fasteignir gera og þar þarf breytta löggjöf þannig að alltaf þurfi að fara fram umræða hjá þar til bærum yfirvöldum sem síðan leiði til ákvörðunar um breytingar sem kjörnir fulltrúar bera pólitíska ábyrgð á.
Fasteignagjöldum er ætlað að standa undir ákveðinni þjónustu sveitarfélaga og eiga því að taka mið af kostnaði við hana en ekki af verðhækkunum á „bandbrjáluðum" húsnæðismarkaði.
Hagsmunasamtök heimilanna hvetja öll sveitarfélög landsins til að gera sitt besta til þess að tryggja að hækkun fasteignmats hafi ekki í för með stórauknar álögur á útgjöld heimila. Samtökin benda á að þar á meðal eru ekki aðeins sjálf fasteignagjöldin, heldur einnig lóðarleiga auk vatnsveitu- og fráveitugjalda í sumum sveitarfélögum. Það ætti að vera tiltölulega einfalt verk að endurreikna álagningarhlutföllin þannig að þau leiði ekki til óeðlilegrar krónutöluhækkunar, einkum hjá þeim sem minnst mega sín.
Hagsmunasamtök heimilanna hvetja jafnframt stjórnvöld til þess að gera nauðsynlegar breytingar á lögum og reglum til að afnema þá beinu tengingu fasteignagjalda við fasteignamatsverð sem kveðið er á um í núgildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga og er á færi löggjafans að breyta.
Það getur ekki verið eðlilegt að húsnæðisverð hækki um tugi prósenta á ársgrundvelli en samt er það veruleikinn. Það verður að berjast gegn því að þær hækkanir sem þegar hafa orðið verði ekki til þess að ýmsir aðrir kostnaðarliðir hækki án þess að heimilin fái nokkuð við það ráðið.
Hagsmunasamtök heimilanna