Margir fótboltaáhugamenn upplifðu hreina martröð er þeir komu til að horfa á leik Liverpool og Real Madrid á Stade de France 28 maí. Liverpool hefur tekið á móti 6,500 frásögnum einstaklinga af því er gerðist og samkvæmt framkvæmdastjóra Liverpool, Billy Hogan þá lentu margir stuðningsmenn Real Madrid í því sama og safna líka sögum af því er gerðist. Seinka þurfti leiknum af því að sætaraðir Liverpoolmanna voru hálftómar en þeir sátu þá fastir við inngangshlið sem voru harðlokuð og enginn virtist hafa það hlutverk að skanna miða og hleypa fólki inn.
Innanríkisráðherrann, Gérald Darmanin reyndi ítrekað að koma sökinni á stuðningsmenn Liverpool, þeir hefðu komið margir miðalausir eða með falsaða miða og krafist þess að komast inn á völlinn. Á sama tíma og Liverpoolmenn sátu fastir þá klifraði gengi vasaþjófa og ofbeldismanna yfir girðingarnar og rændu og börðu mann og annan. Samkvæmt lýsingum sjónarvotts þá gætu þessir óæskilegu gestir úr innflytjendahverfum Parísar hafa verið meira en þúsund að tölu.
Þetta voru þó ekki einu hremmingarnar því franska lögreglan skaut táragasi á fótboltaáhugamennina bæði fyrir og eftir leik og eftir leikinn virðast vasaþjófarnir hafa haft frítt spil en lögreglan fámenn og hafði sig lítt í frammi. Hinn 3. júní kom afsökunarbeiðni frá UEFA. Engir fótboltaáhugamenn ættu að upplifa sig í ógnvekjandi og streituvaldandi aðstæðum og þetta megi ekki gerast aftur. Því hafi UEFA skipað óháða nefnd til að leita skilnings á því hvað fór úrskeiðis. Leiðtogi nefndarinnar er Dr Tiago Brandao Rodrigues fyrrum menntamálaráðherra Portúgals.
Margar frásagnir þeirra er voru á staðnum hafa ratað í fjölmiðla og enn fleiri á Netið. Breska blaðið Mirror sagði t.d. sögu fimm vina sem fóru á leikinn. Á leiðinni út af vellinum úðaði franska lögreglan á þá táragasi og er þeir komu á gististaðinn þá hafði verið brotist þar inn og eigum þeirra stolið, þar á meðal farmiðunum til baka. Bíllinn sem þeir höfðu til umráða var einnig horfinn.
Frönsku blöðin eru líka með sögur og viðtöl. Le Parisien er með viðtal við framkvæmdastjóra fatlaðra áhanganda Liverpool. Er hann kom að inngangshliðinu þá höfðu þrír í hjólastólum beðið í meira en klukkutíma vegna þess að enginn sinnti þeim. „Þetta var rugl,“ segir hann. Fólk stillti sér upp með gilda miða en þeir voru ekki skannaðir af starfsmönnum mönnum, sem virtust gjörsamlega úti á þekju. Enginn vissi hvert ætti að beina fólki með miða sem virkuðu ekki.
Hann segist hafa séð ótrúlega marga sem voru rændir af vasaþjófum og á leið burt af vellinum hafi menn hlaupið á þau frá öllum hliðum til að reyna að ræna fólkið - og engin lögregla í augsýn. Hann segir að fatlaður 8 ára drengur hafi lent í táragasi lögreglunnar og maður í hjólastól einnig og blindir stuðningsmenn hafi orðið viðskila við hópinn.
Hann er reiður út í frönsku lögregluna. „Við komum til að sjá fótboltaleik. Ímyndaðu þér að vera algerlega blindur og vera þrýst á handrið, veifa stafnum þínum upp í loftið og biðja um hjálp. Og veistu það versta? Það er að lögreglan hló. Þeir voru að gera grín að okkur, eins og þetta væri allt leikur.“ Hann er einnig reiður út í franska innanríkisráðherrann sem hafi logið og logið upp á 30- 40.000 stuðningsmenn Liverpool og finnst hann ætti að segja af sér.
Le Parisien er einnig með frásagnir þeirra Mark Woods og Neil Salinas og manns sem náði símanum sínum aftur frá þjófi. Mark er enn í sjokki er hann lýsir því að ungmenni, hugsanlega meira en þúsund, hafi streymt að brúnni sem hann var á öskrandi, sparkandi í fólk og lemjandi. Það hafi verið mjög ógnvekjandi og ekkert gagn í lögreglunni. Neil fékk skurð á höfuðið er hann féll í götuna er reynt var að stela síma hans og úri og kona hans var dregin afturábak á hárinu, öskrandi á hjálp. Þetta hafi minnt á hryllingsþáttaröðina Walking Dead. Hvorugur þeirra ætlar úr landi á fótboltaleiki, þeir hafi orðið það hræddir, og Neil ráðleggur fólki að fara ekki til Frakklands á Ólympíuleikana 2024.
Hér má sjá myndband: