Hinn 31. maí birti Newsweek frétt um að mannréttindafulltrúi úkraínska þingsins, Lyudmila Denisova, hefði verið svipt embætti. Haft er eftir þingmanninum Pavlo Frolov að ýmsar ástæður hefðu legið þar að baki. Þar á meðal hefðu verið hinar fjölmörgu frásagnir af „ónáttúrulegum kynferðisafbrotum“ og kynferðisbrotum gegn börnum á svæðum sem Rússar hefðu lagt undir sig, sem hefðu verið settar fram án sannana og sköðuðu bara Úkraínu.
Einnig nefndi hann að hún hefði endurtekið brugðist þeim skyldum sínum að koma upp flóttaleiðum og unnið gegn brottflutningi fullorðinna og barna frá hernumdu svæðunum. Einnig vísar Newsweek í bréf frá úkraínskum blaðamönnum sem fannst hún fara mjög frjálslega með efni sem væri óstaðfest og báðu hana um að hyggja að staðreyndum áður en hún birti fréttir sínar.
Helstu fjölmiðlar okkar bergmáluðu allir, eða flestir, ásakir Denisova jafnvel þótt þær væru mjög vafasamar. Fréttablaðið hafði t.d. eftir henni gegnum BBC að 25 konum hefði verið haldið föngum í kjallara í Bútsja og nauðgað kerfisbundið. „Rússnesku hermennirnir sögðu þeim að þeir myndu nauðga þeim þangað til þeim langaði ekki lengur í kynferðislega snertingu frá nokkrum manni, til að koma í veg fyrir að þær myndu bera úkraínsk börn,“ hafði Fréttablaðið eftir Denisova. Lesendum var sem sagt ætlað að trúa því að rússneskir hermenn sem eiga margir hverjir úkraínska afa og ömmur og aðra nána ættingja nauðguðu konum skipulega til að koma í veg fyrir að Úkraínumönnum fjölgaði.
BBC hefur sagt frá embættismissi „skáldkonunnar“ og af hverju henni var vikið frá en þær fréttir þykja víst ekki fréttnæmar í fjölmiðlum okkar. Ættu þeir ekki að getað viðurkennt að þeir hafi látist blekkjast og birt frétt um að Denisova hafi verið sett af og sé grunuð um að hafa beitt hugarflugi sínu til að skálda lýsingar á meintum kynferðislegum stríðsglæpum Rússa?
One Comment on “Skáldaði mannréttindafulltrúi úkraínska þingsins frásagnir af kynferðisafbrotum Rússa?”
Þetta stríð eða réttara sagt umfjöllunin um það, sýnir vel hvernig “virtar fréttastofur” landsins , bera út áróður i fólkið i landinu eins og ekkert se sjálfsagðara, annaðhvort ljúga þær blákalt eða einfaldlega vinna ekki neina forvinnu að neinu leyti, apa bara upp það sem þeim er sagt, hvort tveggja er óboðlegt og hreinasta mannvonska , mannvonska og helber heimska