Ungir sjálfstæðismenn vakna til lífsins – buðu ókeypis skutl úr miðbænum

frettinPistlarLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Ungir sjálfstæðismenn tóku sig til um helgina og buðu upp á ókeypis skutl úr miðbænum. Mögulega lögbrot, mögulega tímabundin aðför að atvinnu launaðra bílstjóra, án efa umdeilt og kannski á jaðri þess að vera ábyrgðarlaust enda aldrei að vita hvað getur komið upp á þegar fullir farþegar setjast upp í bifreið.

En óháð öllu þessu: Frábær leið til að benda með áberandi hætti á stórt vandamál.

Akítvismi, eins og hann gerist bestur. Friðsæll, á eigin kostnað aðgerðasinna og án þvingunar.

Ungir hægrimenn voru óhræddir við slíkt á árum áður.

Mér kemur strax til hugar ólöglega útvarpið hans Hannesar Hólmsteins og félaga sem hlýtur að hafa flýtt fyrir afnámi ríkiseinokunar á útvarpsstarfsemi (já, ungu lesendur, það var í raun og veru bannað að reka frjálsa útvarpsstöð á árunum áður en Bylgjan var stofnuð).

Einnig áfengissala Ungra frjálshyggjumanna á Austurvelli og nokkrum árum áður áfengissala Heimdalls.

Ekki mikilvægustu málin segir einhver, og nýtur tollfrjálsa sopans sem var keyptur í seinustu utanlandsferð, en það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að víða treður ríkisvaldið á okkur eins og litlum maurum og þegar á það er bent með áberandi hætti þá opnast hugur margra fyrir hinni stóru mynd. Ríkisvaldið er ekki einhver verndarengill. Nei, það er fyrirbæri sem ver sjálft sig og vill auka við umsvif sín. Það stendur í vegi fyrir að kaupendur og seljendur fái að eiga frjáls, friðsæl og ofbeldislaus viðskipti, hvort sem það er skutlþjónusta eða handaskipti á svolitlum bjórsopa. Og margt, margt fleira.

Vonandi eru ungir hægrimenn, meðal annars þeir í Sjálfstæðisflokknum, aðeins að hrista af sér slenið. Samfélagið mun njóta góðs af slíku.

Skildu eftir skilaboð