„Misskilningur og rangfærslur kynjafræðinga varðandi þungunarrofsdóm Hæstaréttar Bandaríkjanna“

frettinPistlarLeave a Comment

Brynjar Nielsson lögmaður og fyrrv. alþingismaður skrifar á facebook um umræðurnar í kringum fóstureyðingardóm Hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann segir rangfærslur og misskilning áberandi í umræðunni meðal kynjafræðinga og annarra og segir að Hæstiréttur Bandaríkjanna hafi einfaldlega sagt að þungunarrof væri ekki stjórnarskrárvarinn réttur, heldur væri það kjörinna fulltrúa að ákveða með lögum réttindi til þungunarrofs og reglur þar um.

Færsla Brynjars í heild er svohljóðandi:

Skemmtilegt að hlusta á kynjafræðinga, og aðra sem halda að þeirra pólitík séu fræði og vísindi, fjalla um niðurstöðu hæstaréttar Bandaríkjanna um þungunarrof. Rangfærslur og misskilningur er áberandi í umræðunni. Hæstiréttur Bandaríkjanna er einfaldlega að segja að þungunarrof sé ekki stjórnarskrár-varinn réttur heldur er það kjörinna fulltrúa að ákveða með lögum réttindi til þungunarrofs og reglur þar um. Þannig virkar nefnilega lýðræðið. Ef Bandaríkjamenn vilja að þungunarrof verði stjórnarskrárvarinn réttur er rétt að þeir breyti og bæti við stjórnarskrána um það.

Skapandi lögfræði hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu áratugi, sem felst í því að dómstólar taka sér vald, sem með réttu á að heyra undir kjörna fulltrúa fólksins. Það virðist sterk tilhneiging til að víkka út vald sitt og virðist það sérstaklega auðvelt þegar stjórnarskrár og ýmsir mannréttindasáttmálar eru undir.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur verið sérstaklega skapandi í þessum efnum á undanförnum árum. Sló hann öll fyrri met með þeirri niðurstöðu að sakborningur hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð að því að ráðherra og þingmenn, kjörnir fulltrúar fólksins, hafi komist að annarri niðurstöðu en matsnefnd um hæfni dómara sem skipaðir voru í Landsrétt. Breytti engu þótt enginn ágreiningur hafi verið um að þessir skipuðu dómarar voru hæfir til embættis og að matsnefndin hafi breytt fyrra mati enda stóðst það mat enga skoðun. Það sjá allir viti bornir menn að þetta mál hafði ekkert með óréttláta málsmeðferð að gera, meira að segja frumkvöðlar í að jafna kolefnisspor með því að nýta sér verk annarra í eigin þágu vita það. Vonandi sér MDE að sér eins og hæstiréttur Bandaríkjanna. Ef ekki molnar smátt og smátt undan honum og nú þegar eru nokkur ríki að íhuga að taka ekki þátt í þessu kompaníi lengur.

Ég vil taka það fram að þótt ég telji niðurstöðu hæstaréttar Bandaríkjanna rétta er ég ekki á móti fóstureyðingum eða þungunarrofi og hef aldrei verið. Ég tel það mikilvæg réttindi leghafa þótt það séu ekki mannréttindi í eiginlegum skilningi. En ég geri mikinn mun á frjóvgaðri frumu í legi og barni sem gæti lifað án leghafa þegar kemur að heimild til þungunarrofs, þótt það geti verið réttlætanlegt fram að fæðingu í vissum tilvikum.

Að lokum ein spurning. Hvað ætlar þessi kynlausi nútími að leyfa hugtakinu mannréttindi að lifa lengi? Hvað segja allir kynjafræðingarnir og þeir á RUV um það?

Skildu eftir skilaboð