Gréta Jónsdóttir er móðir manns sem glímt hefur við fíknivanda um árabil, maðurinn er edrú í dag en kemur allstaðar að lokuðum dyrum í kerfinu og engin úrræði að finna þrátt fyrir margar tilraunir.
Maðurinn býr í tjaldi sem hann hefur þurft að tjalda víðsvegar um höfuðborgarsvæðið að undanförnu, en fjölskyldan hefur reynt allt til að hjálpa honum en ekkert gengið. Foreldrar hans eru komnir á ellilífeyri en þeir urðu sjálfir að flýja land til að ná endum saman. Þau fluttu til Spánar vegna húsnæðisleysis og geta því ekki verið syninum innan handar, nema eftir bestu getu að utan.
Gréta vakti athygli á málinu á facebook síðu sinni þar sem hún segir að hún hafi lítið sofið vegna áhyggna af syni sínum sem hafi ekkert sofið í tjaldinu. Hann var með örþunnan svefnpoka, enga dýnu, ekkert teppi, eða hitari í tjaldinu og nóttin var ísköld, við frostmark.
Sonur hennar hefur ekki efni á að dvelja á tjaldsvæði og hefur því þurft að tjalda hér og þar og var í nótt í runnum við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Gréta segir að á tjaldsvæðinu í Laugardal megi einungis vera að hámarki í eina viku, og því getur maðurinn ekki verið þar nema tímabundið, segir hún.
Gréta spyr sig af hverju hælisleitendur fá strax húsnæði en ekki húsnæðislausir Íslendingar? „Erlend kona var send á sjúkrahótel, en íslenskur maður á götuna, er svo sorgmædd og bitur út í þetta kerfi, hvar er kirkjan og kristilegur kærleikur?“ spyr móðirin.
Gréta segir að sonur hennar sé bara einn af hundruðum í sömu sporum og segir:
„Hann hefur verið húsnæðislaus í 3 ár eftir að honum var sagt upp húsnæði á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Þetta var ólöglegt var okkur sagt af Neytendasamtökum og sagt að hann ætti að fara fram á milliflutning. Þangað til ætti hann ekki að fara út úr íbúðinni, en þá var bara skipt um skrá/lás. Ítrekað var farið fram á milliflutning, en fátt um svör.
Lög um Félagsþjónustur eru skýr, ef einstaklingur getur ekki orðið sér út um húsnæði, þá ber Félagsþjónustu að útvega húsnæði til bráðabirgða, þar til varanlegt húsnæði finnst. Þetta er þverbrotið. Mannréttindasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna er einnig alveg skýr um rétt fólks á húsnæði. Hann hefur oft óskað eftir hjálp og innlögn í meðferð t.d. eftir öndunarstopp sl. vetur, í febrúar minnir mig, en var vísað út af bráðamóttöku, eftir miðnætti, skólaus, bara í buxum og bol, peningalaus og símalaus í frosti og vondu veðri.
Landspítalinn fíknideild var beðinn um að taka við honum en synjaði. 16. júní var hann beittur andlegu og tilfinningalegu ofbeldi frá fjölskyldumeðlimum, rauk í burtu þaðan sem við vorum og hótaði sjálfsvígi. Við leituðum að honum í nokkra daga, þangað til hann hringdi og sagðist vera á Landsspítala. Hann varð fyrir líkamsárás sofandi, 7 spor í augnabrún. Hann er sendur frá bráðamóttöku á Geðdeild 33C. Þar var hann í 6 daga. Aftur var hann sendur út á götu, þrátt fyrir að vera engan vegin tilbúinn til þess. Fíkniráðgjafi taldi hann ekki nógu edrú eftir 6 daga til að fara á Teig. Enn var hann fatalaus, þ.e. einungis í bol og buxum, engin yfirhöfn og sendur á götuna. Engin meðferðarstofnun með pláss, ekkert úrræði fyrir neinn í þessum sporum!
Haft var samband við félagsráðgjafa á LSP og Félagsþjónustuna í Hafnarfirði, en fátt um svör. Hann fékk lítið tjald, svefnpoka og úlpu hjá Frú Ragnheiði og svaf úti í 3ja stiga hita. Engin dýna, teppi, koddi eða annað til að gera vistina bærilegri. Það er EKKERT sem grípur þetta fólk, engin úrræði. Það sem er númer eitt á þarfalista einstaklings, er þak yfir höfuðið. Lítil von til þess að fólk haldist edrú ef það er bara gatan sem bíður. Sem betur fer var maðurinn minn að fara í aðgerð og var með gistingu á sjúkrahóteli og gat leyft honum að vera hjá sér. En hvað tekur við á mánudag vitum við ekki. Það eru bara ofurmenni sem geta orðið edrú í svona mótlæti, segir Gréta.
Þá segir Gréta að þau hjónin hafi leitað til Rauða Krossins eftir aðstoð, en þeim hafi verið neitað og Hjálparstofnun kirkjunnar hafi ekkert að upp á að bjóða heldur.
Nú er svo komið að þau foreldrarnir hafa miklar áhyggjur af syni sínum og telja hann ekki getað lifað lengi við þessar aðstæður.
Þau hafa einnig óskað á facebook síðu sinni eftir dýnu í tjaldið, teppi, sæng og kodda og hitara til að gera dvölina bærilegri fyrir son þeirra.
Allir þeir sem mögulega geta veitt aðstoð í einhverskonar formi vinsamlegast hafið samband við Grétu í skilaboðum, einnig er hægt að senda póst á [email protected] og því verður komið áleiðis.