Björn Bjarnason fv. dómsmálaráðherra skrifar:
Ávallt þegar atburðir af þessu tagi gerast í nágrannalöndum, einkum norrænum, er ástæða fyrir okkur að líta í eigin barm og huga að þróun íslensks samfélags.
Aðfaranótt laugardags 25. júní var gerð skotárás í miðborg Oslóar, lokaði lögreglan C.J Hambros Plass. Tveir féllu í valinn og 21 særðist. Árásarmaðurinn var einn.
Að morgni laugardags sagði lögreglan að sá grunaði væri 42 ára norskur ríkisborgari, búsettur í Osló, upphaflega frá Íran. Lögreglan og leyni- og öryggislögreglan, PST, þekkti til hans. Lögreglan fer með málið sem hryðjuverk á þessu stigi þess og hefur lögreglumönnum hvarvetna í Noregi verið skipað að bera vopn. Þá hefur Pride-göngu sem átti að vera í Osló 25. júní verið aflýst.
Maðurinn var handtekinn kl. 01.19 að staðartíma aðeins fjórum mínútum eftir að lögreglu barst tilkynning um voðaverkið. Hann er sakaður um morð, morðtilraun og hryðjuverk. Þegar þetta er skrifað segir norska lögreglan að of snemmt sé að fullyrða neitt um tilgang verknaðarins. Ein kenningin er að um hatursglæp gagnvart samkynhneigðum sé að ræða.
Haraldur Noregskonungur sagði í tilkynningu að fjölskylda sín og hann væru harmi sleginn vegna atburðarins. Þjóðin verði að standa saman og verja gildi sín: Frelsi, fjölbreytni og virðingu hver fyrir öðrum. Áfram verði að tryggja að öllum finnist þeir búa við öryggi.
Ávallt þegar atburðir af þessu tagi gerast í nágrannalöndum, einkum norrænum, er ástæða fyrir okkur að líta í eigin barm og huga að þróun íslensks samfélags.
Föstudaginn 24. júní birtist á dv.is frásögn eftir Ágúst Borgþór Sverrisson blaðamann um árás sem gerð var á mann úti á Seltjarnarnesi að morgni 17. júní þegar hann laut niður að dekki á bíl sínum.
Þetta var Omar Alrahman er 41 árs gamall maður frá Írak sem býr í Hafnarfirði með eiginkonu, barni og föður sínum. „Er Omar kom til Íslands í nóvember árið 2020 taldi hann sig hafa fundið friðsælasta stað á jarðríki og hlakkaði til að búa fjölskyldu sinni gott heimili og eiga í vændum góða framtíð. Þetta hefur að miklu leyti gengið eftir, allt þar til Omar varð fyrir óskiljanlegri og lífshættulegri líkamsárás á byggingarsvæði á Seltjarnarnesi á 17. júní,“ segir blaðamaðurinn.
Í læknisvottorði sem Omar hefur undir höndum kemur fram að hann hlaut þrjú brot á höfuðkúpu og sár á höfuðið, rifbeinsbrot og löskun á hægri hendi. Auk þess er hann sagður vera í áfalli og líða mjög illa andlega eftir árásina. Lá hann á heila- og taugaskurðdeild Landspítalans í tvo sólarhringa eftir atvikið. Hann er núna rúmfastur á heimili sínu í Hafnarfirði, segir í frétt dv.is.
Þar segir einnig að maðurinn sem réðst á Omar sé frá Afganistan en mennirnir þekkist eiginlega ekki neitt. Omar hafi ekki vitað um neinn ágreining á milli þeirra.
Þessi frásögn af nýlegu voðaverki hér vekur óhug og spurningar hvernig í raun takist að sameina ólíka menningarheima í samfélagi okkar. Hvort þau mál séu rædd af nægilegu raunsæi og alvöru.
Enn skal minnt á að þeir sem sinna íslenskri löggæslu hafa ekki sömu rannsóknarheimildir og til dæmis PST í Noregi. Það þarf ný tæki og nýjar aðferðir til að bregðast við aðstæðum í síbreytilegu samfélagi.