Eftir Arnar Sverrisson sálfræðing:
Evrópuráðið um utanríkismál (European Council on Foreign Relations) er hugveita (think thank) í tengslum við Nató. Veitan hefur nú sent frá sér slunkunýja skýrslu um ástandið í Evrópu með tilliti til Úkraínu – almenningsálitsins sérstaklega.
Hið bannsetta stríð í Úkraínu hefur nú varað rúma eitt hundrað daga, öllum til bölvunar. Íbúar Evrópu voru afskaplega herskáir í byrjun og hugur þeirra stóð upp á gátt fyrir alls konar sögufölsunum og áróðri. Blásið var óspart lífi í gömlu Rússagrýluna – ekki síst á Norðurlöndum. Hugsunum, tilfinningum og viðhorfum fólks var stýrt með hjálp meginstraums- og samfélagsmiðla í eigu örfárra auðkýfinga eða samtaka þeirra. Þeir eru iðulega hliðhollir stjórnvöldum (og eiga þau jafnvel óbeint líka). Fésbók sker sig úr.
Evrópubúar studdu og jafnvel heimtuðu allra handa refsingar gegn Rússum, sem nú bíta sárlega í budduna þeirra. Enda virðist svellandi vígamóðurinn renna hratt af þegnum margra þjóða, nema helst Þjóðverjum, Pólverjum og Norðurlandabúum. Líklega grunar Evrópubúa almennt ekki, að þeir séu peð í alheimsskák stórveldanna, sem þeir eru dæmdir til að tapa. Evrópa og Bandaríkin eru ekki lengur miðás heimsins, sem allt hverfist um. Þau veltast í fjörbrotunum og þegnarnir skilja ekki, hverjum klukkan glymur.
Íslensk stjórnvöld einbeita sér nú að því í boði skattgreiðenda að bjarga úkraínskum köttum og hundum undan illskeyttum Rússum. Eigendum þeirra, konum og börnum, hafa þau áður reynst vel, en stuðlað að kaupum og flutningum á vopnum handa eiginkörlum og feðrum á vígvellinum í töpuðu stríði. Stríðsstjórnvisku íslenskra stjórnvalda og hernaðarsérfræðinga hennar er viðbrugðið nú sem endranær.
Fleiri vilja friðsamlega lausn
Í skýrslunni kemur m.a. fram, að enda þótt samúð með Úkraínumönnum sé sterk og enn sé stuðningur við efnahagsstríð Evrópu gegn Rússum, eykst fjöldi þeirra, sem óska friðsamlegrar lausnar á stríðinu. Um fjórðungur íbúa leggur þó megináherslu á að hirta Rússa.
Og viti menn! Íslenska stríðsstjórnviskan fær vissan hljómgrunn hjá hugveitunni. Hún segir nefnilega, að nú verði stjórnmálamenn Evrópu að girða sig almennilega í brók og semja nýtt áróðursstef, svo almenningsálitið fari ekki úr böndunum. Kynna verður vopnasendingar til Úkraínu og viðskiptarefsingar gegn Rússum sem hluta varnarstríðs Evrópu.
Í sjálfu sér er stefið ófrumlegt. Það var notað á sínum tíma af Bandaríkjamönnum, þegar þeir höfðu forgöngu um eða þvinguðu fram stofnun Nató til varnar blæðandi Ráðstjórnarríkjum og þjóðum á áhrifasvæði þeirra. Sannast nú sem oftar, að fátt sé nýtt undir sólinni. Og það grátbroslega er, að nefndar þjóðir fengu ekki að vera með, hvorki þá né síðar. Og viðskiptaþvinganir eru gömul brella Bandaríkjamanna gegn vanþóknanlegum ríkjum.
Pólverjum í nöp við Manilo
Það kemur varla á óvart, að fylgst sé með því voðafólki, sem viðrar annars konar eða bannaðar skoðanir á sköpunarsögu stríðsins í Úkraínu, en stjórnvöldum Evrópu og Nató eru þóknanlegar. Það er eftir föngum reynt að kefla þá, rétt eins og gerist í Rússlandi og Úkraínu sjálfri. Einn þeirra er Ítalinn, Manlio Dinucci, landfræðingur.
Pólverjum virðist sérstaklega í nöp við Manlio og hafa beitt sér fyrir að þaggað verði niður í honum. Pólverjar hafa á stuttum lýðræðisferli sínum greinilega náð tökum á lýðræðislegu umræðusiðferði samtímans.
Pólverjar gætu jafnvel sitthvað nytsamlegt lært um viðbrögð við óæskilegum hugsunum og óæskilegri tjáningu innan íslenska lögregluríkisins. Katrín okkar allra gæti vafalaust bent á leiðir til lagasetningar gegn „hatursumræðu“ og misrétti kynjanna. Hún gæti t.d. bent Pólverjum á, hvernig milda megi misrétti gegn húsmæðrum, þ.e. að skylda hið opinbera að greiða í orlofssjóð þeirra.
Heimildir má finna undir færslu Arnars hér.
One Comment on “Klýfur Úkraínustríðið Evrópu í herðar niður?”
Og hananú. https://youtu.be/d-BzyGQ_XSg