Páll Vilhjálmsson skrifar:
G7 löndin, stóra-vestrið, eru Norður-Ameríka, 4 stærstu ríkin í Vestur-Evrópu og Japan. Íbúafjöldi er samtals 771 milljón. Viku fyrir G7 fundinn, hittust leiðtogar BRICS-ríkjanna á fjarfundi. Ásamt Indónesíu og Argentínu, væntanleg aðildarríki, telja BRICS-ríkin 3 milljarða íbúa. Hlutföllin eru 1 á móti 4.
BRICS er andvestræna alþjóðabandalagið skrifar þýska borgaralega útgáfan Die Welt. Höfundur greinarinnar, Stefan Aust, er stórt nafn í þýskri blaðamennsku. Ekki fréttabarn, sem sagt.
BRICS-ríkin eru Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka. Stór lönd í fjórum heimsálfum. Þau styðja öll Rússa í staðgenglastríðinu við stóra-vestrið í Úkraínu.
Heimspólitísk umskipti standa fyrir dyrum, segir fjármálavesírinn Ray Dalio. Alþjóðakerfið sem Bandaríkin settu upp eftir seinna stríð er komið að fótum fram. Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hæðist að aldamótakenningu Fukuyama um sigur stóra-vestursins með endalokum sögunnar.
Kenningin um að heimsbyggðin yrði vestræn hvíldi á þeirri forsendu að frjálslynda vinstrið í bandalagi við nýfrjálshyggju kynni uppskriftina að menningarverðmætum annars vegar og hins vegar sjálfbærri fjársýslu.
Árangurinn er sá að vestræn menning veit ekki hvort kynin séu þrjú, fimm eða seytján. (Nýjasta talan er 150). Vestrænt fjármálavit er búið að kokka upp verðbólgu sem hefur ekki sést í Evrópu frá dögum Weimar-lýðveldisins. Miðjan hrynur á vesturlöndum, nýjasta dæmið er þingkosningarnar í Frakklandi þar sem flokkar yst til hægri og vinstri eru í stórsókn.
Við vitum hverjum klukkan glymur þegar forsætisráðherra Íslands er orðin stórstjarna í menningarstríðinu vestan hafs. Katrín tók sér málhvíld frá transumræðunni hér heima og sló í gegn með ummælum um rétt bandarískra kvenna til fóstureyðinga. Kvenréttindi eru aftur ósamrýmanleg transréttindum. Í transheimi getur karl verið kona þótt engu móðurlífi sé til að dreifa.
Menning sem ekki kann skil á einföldustu atriðum mannlífsins er ekki upp á marga fiska. Stóra-vestrið gerir heimsbyggðinni tilboð sem auðvelt er að hafna. BRICS-ríkin eflast en G7-ríkin veikjast.