Eftir Jón Magnússon hæstaréttarlögman:
Brottflæmdir Íranar hafa mótmælt harðýðgi og mannréttindabrotum klerkastjórnarinnar víða um Evrópu undanfarið.
Ég gekk inn í einn slíkan mótmælafund í London fyrir nokkru. Það sem vakti helst athygli mína var aragrúi mynda af ungu fólki allt niður í 11 ára, sem öryggissveitir klerkastjórnarinnar höfðu myrt frá því að friðsöm mótmæli hófust í landinu.
Fréttir meginstraumsmiðla eru svo lélegar og nánast allsstaðar þær sömu. Mikilvægar fréttir fara iðulega framhjá fólki vegna þess að ekki er fjallað um málin. Þegar landsliðið í knattspyrnu neitar að syngja þjóðsönginn á HM í Katar sér fólk hvað undiraldan er gríðarleg.
Nú lofar stjórn Íran að leggja niður siðgæðislögregluna og hætta að skylda konur til að hylja hár sitt og andlit með tilheyrandi höfuðbúnaði. Eftir er að sjá hvort þetta gengur eftir og hvort að fólk sé ekki orðið svo langþreytt á þursaveldinu, að það hætti ekki fyrr en almennum lýðréttindum hefur verið komið á og klerkastjórninni ýtt til hliðar.
Ríkisstjórn sem myrðir eigin borgara breytist þá í hryðjuverkasamtök. Í Hyde Park í London varð ég þess var að ríkisstjórn Íran er ein slík. Þeirri ríkisstjórn miðaldahugmyndafræði og ógnarstjórnar verður að koma frá völdum.
Ekki virðist vefjast fyrir írönskum konum, að telja höfuðblæjur og handklæði um höfuð vera tákn ófrelsis kvenna. Á sama tíma fjölgar slæðukonum á götum Reykjavíkur og sértrúarhópurinn á RÚV fagnar og telur þann búnað hinn ákjósanlegasta fyrir konur og fjarri því að hafa nokkuð með áþján karlaveldisins að gera.
Á sama tíma heyja konur og frelsissinnar í Íran hatramma baráttu gegn þessu tákni ófrelsisins.