Grunnskólastrákar í Bretlandi ásakaðir um hatursglæp er Kóran skemmdist

frettinDómsmál, Erlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Í gær, 2. mars, mátti lesa í breska blaðinu Express um hremmingar fjögurra grunnskólastráka í Wakefield eftir að Kóran sem einn þeirra lagði undir í tölvuleik (sem hann tapaði) féll í gólfið í skólanum og skemmdist lítillega. Lögreglan var kölluð til vegna gruns um hatursglæp og strákunum var vísað úr skólanum á meðan rannsókn færi fram. Sá sem átti bókina er aðeins 14 ára og einhverfur. Hann fékk líflátshótanir eftir að málið spurðist út og móðir hans var kölluð til skýrslugerðar í mosku á staðnum þar sem hún sat með skýlu á höfðinu og baðst afsökunar fyrir hönd sonarins. Hún lýsti honum sem miklum kjána sem vissi ekki alltaf hvað væri viðeigandi út af einhverfunni og nú væri hann viti sínu fjær af ótta vegna líflátshótananna. Í greininni er haft eftir aðila tengdum innarríkisráðherra, Suellu Braverman, að aðkoma lögreglunnar að þessu máli væri „mikið áhyggjuefni“.

Samkvæmt skilgreiningu saksóknara krúnunnar og lögreglunnar á hatursglæp er gert ráð fyrir að fórnarlambið sé persóna - ekki bók. Bretar skilgreina hatursglæp svo: „Sérhvert ólöglegt athæfi sem fórnarlambið eða önnur persóna telur að fjandskapur eða fordómar sé rótin að, byggt á fötlun eða ætlaðri fötlun persónunnar, kynþætti eða ætluðum kynþætti, trúarskoðunum eða ætluðum trúarskoðunum, kynhneigð eða ætlaðri kynhneigð eða trans-sjálfsmynd eða ætlaðri trans-sjálfsmynd“. Allt virðist þetta mjög laust í reipunum.

Wakefield grunnskólinn

Heittrúaðir múslimar virðast líta á vanvirðingu við helsta trúarrit sitt sem beina árás á sig eins og hinn dansk/sænski Rasmus Paludan hefur oft sýnt fram á. Fréttin sagði í sumar sem leið frá „fyrstu intífödunni í Svíþjóð“ en nú fær Rasmus ekki lengur leyfi til að mótmæla íslamvæðingu Svíþjóðar með því að brenna Kóraninn því Svíar vilja ekki móðga Erdogan meira en orðið er. Þeir vonast enn eftir því að Tyrkir veiti samþykki sitt fyrir inngöngu þeirra í NATO.

Ef til vill var þessi fundur í moskunni ætlaður til að lægja öldurnar en einnig getur hafa verið um sjaríadómstól að ræða. Þeir fyrstu birtust snemma á níunda áratugnum og voru sagðir orðnir 85 fyrir nokkrum árum. Með The Arbitration Act frá 1996 styrktist staða þeirra verulega en með þeim lögum fengu „aðilar að máli“ leyfi til að velja hvernig þeir leystu deilur sínar. Öðru hverju má lesa umkvartanir um að sjaríadómstólarnir virði ekki rétt kvenna til sjálfstæðs lífs. Til dæmis mátti lesa í Guardian árið 2016 um samtökin Southall Black Sisters en konurnar í þeim höfðu upplifað eða flúið frá hryllingi og niðurlægingu heiðursmorða, heimilisofbeldis, misnotkunar sem börn, þvingaðra hjónabanda, fjölkvænis, nauðgunar og annars kynferðisofbeldis. Þær hafna, segir Guardian, þeim afturhaldsöflum feðraveldisins er leitast við að deila og drottna með stífu eftirliti og stjórnun á kynhegðun kvenna. Sjaríadómstólarnir eru sagðir viðhalda feðravaldinu innan minnihlutahópa og skaða konur, börn og aðra sem taldir séu hafa gengið af trúnni, séu trúleysingjar eða fylgi ekki reglum íslam út í ystu æsar.

Ekki er hins vegin hægt að finna neinar skynsamlegar ástæður fyrir aðkomu lögreglunnar að þessu máli.Samkvæmt breskum lögum er ekki hægt að fremja hatursglæp gegn bók sem maður á sjálfur.

Skildu eftir skilaboð