Robert F. Kennedy Jr. íhugar að bjóða sig fram til forseta árið 2024 og skora þannig á Biden forseta um útnefningu demókrata. Hann segist hafa fengið samþykki eiginkonu sinnar fyrir framboðinu.
„Ég er að íhuga það já. Stærsta hindrunin er ekki lengur til staðar, þar sem eiginkona mín hefur gefið grænt ljós,“ sagði Kennedy við mannfjöldann í New Hampshire á föstudaginn, samkvæmt fréttum.
Eiginkona Kennedys, leikkonan Cheryl Hines, var að sögn viðstödd ræðuna í New Hampshire Institute of Politics, sem í næstum aldarfjórðung hefur verið skyldustopp í ríkinu fyrir hugsanlega eða raunverulega keppendur um Hvíta húsið.
Kennedy, sem er fæddur árið 1954 er sonur hins látna öldungadeildarþingmanns Roberts F. Kennedy og frændi hins látna forseta John F. Kennedy, lýsir sjálfum sér sem ævilöngum demókrata. Kennedy er umhverfislögfræðingur og stofnandi samtakanna Children´s Health Defence. Hann hefur höfðað fjölda mála gegn lyfjafyrirtækjunum í gegnum starfsævina og er einn þeirra mörgu sem hafa verið ritskoðaðir í Covid-19 faraldrinum, meðal annars vegna afstöðu sinnar til Covid-bóluefna sem hann segir hættuleg heilsunni.
Árið 2021 gaf Kennedy út bókina "The Real Anthony Fauci: Bill Gates, Big Pharma, and the Global War on Democracy and Public Health", sem er grunnurinn að samnefndri heimildarmynd, sem kom út á síðasta ári.