Eftir Þorstein Sigurlaugsson:
„Rót illskunnar er sú að við hugsum ekki. Illskan er óháð hugsuninni, sem marka má af því að þegar hugsunin reynir að skilja illskuna og átta sig á þeim forsendum og meginreglum sem hún sprettur af, þá upplifir hún vanmátt sinn, því hún finnur ekkert. Í þessu felst lágkúra illskunnar.“
Hannah Arendt, Eichmann in Jerusalem
Um daginn átti ég spjall við einn þeirra sem enn trúa því að hin fordæmalausa ofsahræðsla sem greip um sig vegna kórónuveirunnar hafi verið réttlætanleg. Hann spurði mig vitanlega um samsæri og um „eðlufólk“, hvort ég héldi að tölur um dánartíðni víðsvegar að úr heiminum væru falsaðar, og hvort það væri ekki kominn tími til að ég og aðrir efasemdarmenn slökuðum á í „heimsendaspám“ okkar, og vísaði þar í áhyggjur af tjáningarfrelsi og persónulegu frelsi.
Eðlufólkið og The Economist
Það er ekkert nýtt fyrir mér að vera kallaður samsæriskenningasmiður og ég hef oft fengið að heyra að ég trúi á gamla góða eðlufólkið. Spurningunni um dánartíðnina fylgdi viðhengi, línurit með samanburði á dánartíðni í Ástralíu og Nýja Sjálandi annars vegar og í Svíþjóð og Bandaríkjunum hins vegar; þá „góðu“ og þá „vondu“, bersýnilega, og tímabilið auðvitað vandlega valið. Ég er viss um að þetta átti að sýna mér hversu frábærlega fyrrnefndu löndunum tveimur hefði tekist að fást við drepsóttina ógurlegu. Ég tók hins vegar ekki eftir línuritinu fyrr en eftir að ég spurði viðmælandann hvort hann væri að vísa í fullyrðingar The Economist um að dánartíðni væri í raun þrefalt hærri en opinber gögn sýndu, þegar hann talaði um staðhæfingar um röng gögn, en það er eina dæmið um slíkt sem ég man eftir að hafi vakið verulega athygli. Ég hef ekki enn fengið svar við þessari spurningu.
Það var hins vegar spurningin um „heimsendaspárnar“ sem mér þótti áhugaverðust. Sérstaklega með hliðsjón af línuritinu, sem greinilega var ætlað að sýna að viðeigandi viðbrögð við öndunarfæraveiru væru þau að loka fólk inni til eilífðarnóns. Það blasti sumsé við hvað ég var að fást við þennan laugardagsmorgun; það var heimsendaspámaður, og sannarlega enginn aukvisi á því sviði.
Veiruhræðslan og heimsendahugarfarið
Heimsendahugarfarið er ekkert nýtt. Eins og Toby Young fjallaði um í erindi sínu á fundi Málfrelsis í janúar, þá byggir þetta hugarfar á tilhneigingu okkar til að láta spár um hræðilega atburði, sem vissulega væru mögulegir en þó afar ólíklegir, trylla okkur af ótta. Viðbrögðin við kórónuveirunni voru afleiðing þessa hugarfars, hugarfars sem virðist ná sífellt sterkari fótfestu. Það er niðurstaða mín að meginástæðan fyrir þessu sé sú hvernig stöðugt hefur fjarað undan gagnrýninni hugsun á undanförnum árum og áratugum. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef nú hleypt af stokkunum nýju bloggi á Substack, The Edge of Reason, sem hefur það markmið að hjálpa fólki að skerpa hæfni sína í gagnrýninni hugsun. Þetta er lítið skref, en vonandi í rétta átt.
Þegar sífelldar heimsendaspár dynja á okkur, tiltölulega vægar veirupestir eru magnaðar upp í drepsóttir, okkur er sagt að heimsendir verði eftir átta ár, og þar fram eftir götunum, og fjölmiðlar og stjórnvöld slá taktinn alveg samtaka, þá er auðvelt að hrífast með og verða áróðrinum að bráð. Þetta gerðist þegar óttinn við kórónuveiruna tók öll völd. Og nú eru þrjú ár liðin síðan tekið var til við að loka skólum, setja á samkomubönn, banna ferðalög, þvinga fólk til grímunotkunar og nokkru síðar að dæla í það “bóluefnum” sem eiga ekkert skylt við bóluefni, allt ráðstafanir sem ekkert gagn var að, en ollu aðeins skaða. Allt gerðist þetta í krafti ótta, sem drifinn var áfram af gegndarlausum áróðri.
Hugsunarleysið leiðir af sér hörmungar
Lítill minnihluti fólks lét hins vegar áróðurinn ekki svipta sig ráði og rænu. Það var fólkið sem lét sér ekki nægja fyrirsagnir dagblaðanna og sjónvarpsfréttirnar, heldur leitaðist við að afla sér upplýsinga sjálft, kanna sannleiksgildi og röksemdir, spyrja spurninga um það sem sett var fram í fjölmiðlum þegar ekki fór saman hljóð og mynd, skoðaði tölfræðigögn og lagðist jafnvel sumt í lestur vísindarannsókna. Með öðrum orðum, fólk sem beitti gagnrýninni hugsun.
Nú, þegar rykið er loks að setjast eftir hræðslufaraldurinn vegna kórónuveirunnar, þremur árum eftir að hann hófst, sjást afleiðingarnar af heimsendahugarfarinu. Við sjáum þær í verðbólgu og gegndarlausri skuldsetningu ríkja sem stöðvuðu efnahagslíf sitt í vanmáttugri tilraun til að stöðva dreifingu veirusjúkdóms. Við sjáum þær í óafturkræfu tjóni barna sem urðu lokunum skóla að bráð. Við sjáum þær í heilsufarstjóni, í hungurdauða milljóna, og síðast en ekki síst í vantrausti gagnvart stjórnvöldum sem lugu og sköðuðu almenning vitandi vits og þögguðu gagnrýni markvisst niður. Það er í þessu ljósi sem við hljótum að skoða orð Hönnu Arendt um lágkúru illskunnar; hvernig hugsunarleysið leiðir af sér hörmungar.
Gagnrýnin hugsun er eina vopn okkar. Við verðum að beita því
Heimsmynd hræðsluáróðursmeistaranna er nú tekin að molna. Þeir eru í síauknum mæli hafðir að háði og spotti. Áróður þeirra var tilefnislaus og æ fleiri gera sér nú grein fyrir því. Og snákaolían þeirra varð síst til að bæta ástandið. Það er kominn tími til að kalla þá réttu nafni; heimsendaspámenn, snákaolíusala, því það er það sem þeir eru í raun og veru.
Við verðum að líta á þá í réttu ljósi, það er sjálfsagt að hæðast að þeim og við eigum ekki að hika við það. En það merkir ekki að við getum sofnað á verðinum. Því heimsendaspámenn eru hættulegt fólk. Hver svo sem áform þeirra sjálfra kunna að vera ryðja þeir brautina fyrir valdasjúka geðvillinga sem ávallt leynast handan við hornið og bíða eftir tækifæri til að nýta sér ótta okkar og hrifsa völdin. Óttafaraldurinn vegna kórónuveirunnar var ekki sá fyrsti og verður örugglega ekki sá síðasti. En hörmungarnar sem hann hefur haft í för með sér eru líklega verstu afleiðingar slíks faraldurs í sögunni. Ef ekki verður gripið í taumana verða þær enn verri næst.
Eina vopnið sem við höfum til að berjast við heimsendaspámenn og snákaolíusala er gagnrýnin hugsun; skýr rökhugsun, sífelld leit að staðreyndum, sívakandi efi. Og það nægir ekki að örlítill minnihluti hafi gagnrýna hugsun á valdi sínu. Fjöldinn þarf að vera nægur til að stöðva áróðurinn í fæðingu. Það er mikilvægasta verkefni okkar nú að stuðla að þessu.
Ég þakka dr. Sigríði Þorgeirsdóttur prófessor fyrir góð ráð við þýðingu á texta Hönnu Arendt.
Greinin birtist fyrst á Krossgötum 09.03.2023