Eftir Þorstein Sigurlaugsson:
Í dag var tilkynnt að útgáfu Fréttablaðsins yrði hætt eftir daginn í dag. Blaðið hafði lengi glímt við taprekstur, en rekstrarhorfur fjölmiðla versnuðu til muna þegar samfélaginu var skellt í lás snemma árs 2020. Prentmiðlar hafa einnig átt undir högg að sækja og spá jafnvel sumir því að með tíð og tíma leggist þeir alveg af. Með brotthvarfi Fréttablaðsins er aðeins eitt dagblað eftir á íslenskum markaði sem gefið er út á prenti, þótt netfréttamiðlar sem birta efni daglega séu nokkrir. Fyrir utan vefútgáfu Morgunblaðsins og vefútgáfu RÚV er Vísir sá eini þessara miðla sem fellur í flokk almennra fréttamiðla.
Varðstaða … lengst af
Sú elja sem eigendur, stjórnendur og starfsmenn Fréttablaðsins hafa sýnt við að halda útgáfunni úti svo lengi er virðingarverð. Fjölbreytt fjölmiðlun er einn af hornsteinum tjáningarfrelsis og opinnar umræðu því aðeins þannig má tryggja almenningi aðgang að sem flestum sjónarhornum á málefni líðandi stundar.
Eftir að kórónuveiran lét á sér kræla stóð ritstjóri Fréttablaðsins, Jón Þórisson vaktina til varnar persónulegu frelsi og tjáningarfrelsi, raunar til varnar hagsmunum samfélagsins, ritaði ófáa leiðara þar sem atferði stjórnvalda var gagnrýnt og leitaðist við að veita gagnrýnum sjónarmiðum vægi. Trúnaðurinn við þessa frumskyldu fjölmiðils beið því miður verulega hnekki eftir ritstjóraskipti síðsumars 2021 og náði sá viðsnúningur hámarki þá um haustið þegar blaðið tók að hvetja til ofbeldis og útilokunar gagnvart tilteknum hópi fólks í samfélaginu. Í hugum fólks sem heldur trúnað við hugsjónina um frjálst og opið samfélag, umburðarlyndi og manngildi losnaði blaðið því miður aldrei við þann svarta blett.
Ægivald Ríkisútvarpsins
Fjölmiðlamarkaður á Íslandi býr við ægivald Ríkisútvarpsins. Stjórnvöld dæla ómældu fé í rekstur þess sem skekkir gríðarlega samkeppnisstöðu frjálsra fjölmiðla. Auglýsingafé fer auk þess í síauknum mæli úr landi fyrir tilstilli alþjóðlegra netmiðla, sem ekki bætir stöðuna. Í stað þess að taka á grunnvandanum, sem er staða Ríkisútvarpsins á markaði hafa stjórnvöld einblínt á sporslur til handa frjálsum fjölmiðlum, styrki sem í sjálfu sér gera ekkert gagn og leysa með engum hætti vandann, en sem miðlarnir hljóta þó að þiggja. Auk þess er fé dælt í tilgangslausa stofnun, Fjölmiðlanefnd, sem virðist fyrst og fremst gegna því hlutverki að leggja stein í götu frjálsrar blaðamennsku.
Frjáls og opin umræða grundvallast á frjálsum fjölmiðlum. Frjálsir fjölmiðlar hérlendis grundvallast á vilja einstaklinga til að reka þá fyrir eigin reikning, yfirleitt án þess að geta gert sér vonir um að reksturinn muni nokkurn tíma standa undir sér. Þetta gerði eigandi Fréttablaðsins Helgi Magnússon um árabil. Hann hefur nú séð sitt óvænna, en sú elja og fórnfýsi sem hann hefur sýnt gegnum árin er þakkarverð svo ekki sé meira sagt.
Ný og spennandi tækifæri
Samfara þeim áskorunum sem nú þrengja að hefðbundnum fjölmiðlum hafa einnig myndast ný tækifæri. Aukin bein og óbein miðstýring alþjóðlegs fréttaflutnings hefur opnað tækifæri fyrir sjálfstæða rannsóknarblaðamenn og pistlahöfunda sem nú streyma út á markaðinn, einir sér eða í hópum, og byggja upp nýja óháða miðla sem kafa í málefni á þann hátt sem stóru miðlarnir lögðu fyrrum metnað sinn í. Þannig fylla þeir í það gat sem metnaðarleysi stóru miðlanna skilur eftir sig, og sívaxandi fjöldi fólks er tilbúinn að greiða áskriftagjöld fyrir aðganginn. Þannig verður að nýju til frjáls pressa sem ekki lætur fréttamat mótast af hagsmunum eigenda eða auglýsenda, en þrífst á frjálsum framlögum almennings. Þessi þróun á vafalaust eftir að verða hraðari á næstu misserum og árum.
Það er dapurlegt að verða vitni að því að hátt í hundrað starfsmenn Fréttablaðsins og Hringbrautar missa nú vinnuna á einu bretti. Hvað þá nú þegar fyrirséð er að atvinnuástand fari versnandi. Við hljótum að vona að úr rætist fyrir þeim öllum.
Það er raunar hlálegt að það óvissuástand sem nú er uppi er í bein afleiðing af þeirri sjálfsmorðsárás á samfélagið sem stjórnmálaflokkarnir stóðu að, allir sem einn snemma árs 2020, en sem Fréttablaðið barðist gegn af mikilli einurð lengi vel, árás sem raunar átti sér ekki aðeins stað hérlendis, heldur um allan heim.
En öll él birtir um síðir. Ég er sannfærður um að fyrrum starfsmanna Fréttablaðsins eru margir metnaðarfullir fjölmiðlamenn sem geta haslað sér völl á hinum nýja frjálsa fjölmiðlamarkaði sem nú er að slíta barnsskónum. Eiganda og þeim starfsmönnum sem eftir verða óska ég velfarnaðar með þann rekstur sem áfram er haldið.
Greinin birtist fyrst á Krossgötur 31.03.2023
One Comment on “Endalok Fréttablaðsins”
Það verður góður dagur þegar báðar þessar ruslakistur DV og Visir hverfa af vettvangi!
Það má vel vera að það sé gott fólk starfandi innan um allt of marga skítadreifara á þessum tveimur miðlum, enn öfga liðið ræður för.