Eftir Pál Vilhjálmsson:
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri veit hvenær Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks keypti Samsung símann sem notaður var til að afrita síma Páls skipstjóra í byrjun maí 2021. Upplýsingar um símakaupin eru í bókhaldi RÚV.
Stefán veit einnig hvenær Þóra skráði símanúmerið 680 2140. Það númer fór á Samsung símann sem notaður var til að afrita stolinn síma Páls skipstjóra. Í bókhaldi RÚV er nákvæm dagsetning hvenær símanúmerið var skráð á RÚV.
RÚV er opinber stofnun. Stefáni er treyst til að reka stofnunina innan ramma laga og reglna. Þegar fyrir liggur að útvarpsstjóri býr yfir upplýsingum sem varpa ljósi á alvarlegt og glæpsamlegt athæfi starfsmanna stofnunarinnar, sem tóku við stolnum síma og afrituðu hann, þá ber Stefáni skylda til að upplýsa þau málsatvik sem honum eru kunn.
Yfirstandandi lögreglurannsókn er ekki afsökun fyrir útvarpsstjóra að koma í veg fyrir fréttaflutning af málefnum ríkisfjölmiðilsins. Ef RÚV ætlar að standa undir nafni sem fjölmiðill í þágu þjóðarhagsmuna ættu upplýsingar um hvenær Samsung síminn var keyptur og hvenær símanúmerið 680 2140 var leyst út að vera frétt á RÚV.
Upplýsingar um aðild starfsmanna RÚV að afbrotum eiga erindi til almennings.