Björn Bjarnason skrifar:
Við öllum sem utan Samfylkingarinnar standa blasir hins vegar að í sex manna þingflokki Samfylkingarinnar hefur Kristrún ýtt tveimur konum til hliðar, Helgu Völu og Oddnýju Harðardóttur.
Helga Vala Helgadóttir segir að óvild milli hennar og Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, valdi ekki útgöngu hennar úr þinghúsinu. Helga Vala er þannig skapi farin að hún viðurkennir ekki að hafa „lúffað“ fyrir Kristrúnu sem hún gerði þó þegar þingflokksformennskan var tekin af henni.
Við öllum sem utan Samfylkingarinnar standa blasir hins vegar að í sex manna þingflokki Samfylkingarinnar hefur Kristrún ýtt tveimur konum til hliðar, Helgu Völu og Oddnýju Harðardóttur sem sagði í sumar að hún yrði ekki í kjöri að nýju í næstu þingkosningum.
Þegar Helga Vala var spurð um þennan lykilþátt af blaðamanni Vísis svaraði hún:
„Þetta hefur ekkert með samskipti mín og formanns Samfylkingarinnar að gera. Það er mjög mikill vilji í samfélaginu og umræðunni að teikna upp að tvær konur geti ekki verið saman í herbergi. Það á ekki við um okkur, bara alls ekki.“
Hún býr með öðrum orðum til þá kenningu að samfélagið telji að tvær konur geti ekki verið saman í herbergi en það eigi ekki við sig og Kristrúnu. Hefði einhverjum karli dottið í hug að segja þetta, hefði hann strax verið jaðarsettur sem karlremba. Auðvitað geta tvær konur starfað saman. Dæmin um það eru svo mörg að það er furðulegt að gripið skuli til röksemda af þessu tagi.
Síðan Kristrún Frostadóttir varð flokksformaður er ljóst að hún lagði sig fram um að gera lítið úr sjónarmiðum sem voru meðal helstu baráttumála Helgu Völu: nýju stjórnarskránni og ESB-aðildinni.
Á vefsíðunni Mannlífi var fullyrt á dögunum að Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, væri náinn ráðgjafi Kristrúnar. Hvort sem þar er um upplýsingafölsun að ræða eða ekki er hitt staðreynd að með því að hafna nýju stjórnarskránni og ESB-aðild fetar Kristrún í fótspor Ólafs Ragnars.
Í þingsalnum var enginn hvassyrtari í gagnrýni sinni á nýju stjórnarskrána en Ólafur Ragnar þegar hann ávarpaði þingheim við embættisverk sín sem forseti. Hann beinlínis tætti tillögur að nýrri stjórnarskrá í sundur. Þá hefur það ekki heldur farið fram hjá neinum að Ólafur Ragnar er andstæðingur aðildar Íslands að ESB.
Þeir sem skoða stjórnmál með málefni í huga en ekki frá þeim sjónarhóli hvort tvær þingkonur geti verið saman í herbergi sjá að himinn og haf er á milli skoðana Kristrúnar og Helgu Völu í þessum tveimur málum.
Eftir að Svandís Svavarsdóttir féll frá að stöðva hvalveiðar snerist Helga Vala harkalega gegn ákvörðun hennar. Þá brá svo að flokksbróðir hennar og samþingmaður, Jóhann Páll Jóhannsson, helsti stuðningsmaður Kristrúnar, lýsti yfir stuðningi við ákvörðun Svandísar fimmtudaginn 31. ágúst 2023. Laugardaginn 2. september birtist frétt Morgunblaðsins um afsögn Helgu Völu.
Helga Vala laumaðist út af hátíðarfundi alþingis á Þingvöllum 18. júlí 2018 þegar heiðursgesturinn Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, flutti ávarp. Þá var henni nóg boðið. Hún gat ekki verið á sama palli og Pia. Helgu Völu er einnig nóg boðið í þingflokki Samfylkingarinnar og gengur nú út um aðaldyrnar – án þess þó að segja alla söguna. Hún rúmast ekki í þingflokki Kristrúnar.
One Comment on “Helga Vala hrekst af þingi”
Hún endaði á svipaðan hátt og flokksbróðir þinn Jón Gunnarsson sem var bolað úr sýnum ráðherrastól. Ég sé mun meira eftir Jóni enn þessari Helgu völu sem er glópalista skaðræðisskjóða af verstu sort eins og nánast allt hitt hyskið sem er eftir.