Björn Bjarnason skrifar:
Hlaðvörp verða sífellt vinsælli. Þeir sem halda þeim úti hér á landi gera það fyrir eigið fé, með sölu auglýsinga eða áskrift. Allir nema einn: Ríkisútvarpið (RÚV). Það hefur ruðst inn á þennan markað með því að framleiða sérstakan hlaðvarpsþátt, 7 mínútur. Þar kryfur fréttastofa RÚV augnablikið á 7 mínútum alla mánudaga, miðvikudaga og föstudaga.
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Diljá Mist Einarsdóttir, spurði menningar- og viðskiptaráðherra Lilju Alfreðsdóttur á þingi miðvikudaginn 24. janúar, hvort hún teldi þessa hlaðvarpsgerð í almannaþágu og þar með í samræmi við lög um ríkisútvarpið. Hvaða áhrif ráðherra teldi að hlaðvarpsgerð RÚV hefði á starfsemi annarra hlaðvarpa, sem væru í blómlegum samkeppnisrekstri hérlendis og að lokum hver væri kostnaður RÚV vegna hlaðvarpsgerðarinnar á síðasta ári.
Þegar svar ráðherrans er lesið virðist hún eða þeir sem sömdu svarið fyrir hana hafa misskilið spurninguna, því að ræðan snýst um að RÚV sé heimilt lögum samkvæmt að nýta flutt efni í dagskrám sínum og gera það aðgengilegt á hlaðvarpsveitum, og í vefspilara RÚV. Hér væri því ekki um að ræða nýja fjölmiðlaþjónustu í skilningi laganna heldur væri RÚV að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Einnig yrði að hafa hugfast að innlendir fjölmiðlar ættu ekki bara í samkeppni sín á milli heldur væru í daglegri samkeppni við YouTube, Facebook, Netflix og aðrar streymisveitur og einnig erlend hlaðvörp.
Ráðherrann sagði að ekki hefði verið óskað heimildar ráðherra fyrir þessari nýju fjölmiðlaþjónustu enda hefði hún orðið að kosta 500 milljónir króna árið 2022 til að vera heimildarskyld, það er 10% af rúmlega 5 milljarða innheimtu útvarpsgjaldi það árið. Nýjar dreifileiðir teldust auk þess ekki til nýrrar fjölmiðlaþjónustu.
Ráðherra sagði að ekki hefði verið gert sérstakt mat á áhrifum hlaðvarpsþjónustu RÚV á starfsemi annarra hlaðvarpa á fjölmiðlamarkaði. Hún væri ekki fjármögnuð með sama hætti og önnur hlaðvarpsstarfsemi og væri „því í öllu falli ekki í samkeppni við innlend hlaðvörp um sölu viðskiptatilboða“.
Fyrirspyrjandi, Diljá Mist, sá ástæðu til að benda ráðherranum á þá augljósu staðreynd að ekki væri unnt að líkja því saman að breyta fluttu útvarpsefni í hlaðvarpsþætti og „framleiða sérstaka hlaðvarpsþætti, m. a. um, að því að mér skilst, líðan starfsfólks RÚV“. Hún lýsti einnig undrun yfir orðum ráðherra um samkeppnisstöðu RÚV og baráttuna við m.a. erlendar streymisveitur. Hún hefði talið önnur rök fyrir fjármögnun á starfsemi RÚV. Sagði hún að „tilvistarlega baráttu frjálsra fjölmiðla“ mætti rekja til yfirburðastöðu RÚV sem gæti t. d. ekki séð markað hlaðvarpsgerðar í friði. Ráðherrann yrði að endurskoða viðhorf sitt og stjórnmálamenn að taka á málinu.
Í Staksteinum Morgunblaðsins er í dag (1. febrúar) vitnað í Viðskiptablaðið sem telur RÚV fara á svig við tilmæli alþingismanna og menningarráðherra um að minnka umsvif sín á samkeppnismarkaði. Í ár stefni auglýsingatekjur þess yfir 3 milljarða kr. Staksteinum lýkur á þessum orðum:
„Ríkisútvarpið fer með öðrum orðum sínu fram, alveg óháð lögum eða samningum við ráðherra. Slíkt er bara upp á punt að mati stofnunarinnar.“
One Comment on “RÚV-ríkið í ríkinu”
Björn Bjarnason, það er auðvitað fyrirgefanlegt og eðlilegt að þú minna enn meðalgreindur maðurinn sjáir ekki muninn á drullu eða skít (RUV vs Morgunblaðið)